Erlent

Rússar harma að hafa rofið lofthelgi Suður-Kóreu

Kjartan Kjartansson skrifar
Rússneska vélin var af gerðinni Beriev A-50. Myndin er úr safni.
Rússneska vélin var af gerðinni Beriev A-50. Myndin er úr safni. Vísir/EPA
Tæknilegur galli varð til þess að rússnesk herflugvél flaug inn í lofthelgi Suður-Kóreu í gær, að sögn rússneska hersins. Harmar hann uppákomuna en suður-kóreskar herþotur skutu viðvörunarskotum að rússnesku vélinni þegar hún fór í tvígang inn í lofthelgina.

Rússneska varnarmálaráðuneytið hafnaði í fyrstu alfarið að rússnesk herflugvél hefði rofið lofthelgina. Vélin hefði tekið þátt í sameiginlegu loftferðaeftirliti rússneskra og kínverskra herflugvéla yfir Japanshafi og Austur-Kínahafi. Það fyrsta samstarf af slíku tagi á milli ríkjanna.

Nú segir embætti forseta Suður-Kóreu að rússneskur embættismaður hafi harmað atvikið við suður-kóreska varnarmálaráðuneytið og kennt tæknilegu vandamáli um það, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Rússar hafa ekki staðfest þá lýsingu opinberlega.

Þá hafa kínversk stjórnvöld neitað því að flugvélar þaðan hafi inn fyrir lögsögu Suður-Kóreu. Stjórnvöld í Seúl sögðu að þrjár rússneskar vélar og tvær kínverskar hefðu farið inn fyrir loftferðaeftirlitssvæði landsins þar sem erlendar vélar þurfa að gera grein fyrir sér. Önnur rússnesk vél hafi svo farið inn fyrir lofthelgina.

Atvikið átti sér stað yfir Dokdo/Takeshima-eyjar sem Suður-Kóreumenn og Japanir deila um yfirráð yfir. Japönsk stjórnvöld hafa mótmælt uppákomunni við bæði Suður-Kóreu og Rússland.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×