Erlent

Skutu á rússneska herþotu í lofthelgi Suður-Kóreu

Kjartan Kjartansson skrifar
Suður-kóreskar F-15k-orrustuþotur við æfingar. Myndin er úr safni.
Suður-kóreskar F-15k-orrustuþotur við æfingar. Myndin er úr safni. Vísir/EPA

Suður-kóreski flugherinn skaut viðvörunarskotum að rússneskri A-50-orrustuþotu sem fór inn í lofthelgi landsins í dag. Formaður þjóðaröryggisráðs Suður-Kóreu hefur mótmælt flugi rússnesku vélarinnar harðlega við þjóðaröryggisráð Rússlands.

Þrjár rússneskar og tvær kínverskar herþotur fóru inn á loftvarnasvæði Suður-Kóreu þar sem erlend loftför þurfa að gera grein fyrir sér. Ein rússnesku vélanna hætti sér lengra inn í lofthelgina sjálfa, yfir Dokdo/Takeshima-eyjum sem Suður-Kóreumenn hafa á valdi sínu en Japanir gera tilkall til, um klukkan 9:00 að staðartíma, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

F-15k og F-16k-orrustuþotur voru sendar til móts við rússnesku þotuna og skutu þær blysum og viðvörunarskotum að henni. Þegar rússneska þotan sneri aftur inn í svæðið nokkrum mínútum síðar skutu suður-kóresku þoturnar fleiri skotum að henni.

Atvikið er sagt það fyrsta sinna tegundar á milli Rússlands og Suður-Kóreu. Skrifstofa forseta Suður-Kóreu segir hann líta á atvikið alvarlegum augum. Endurtaki það sig muni Suður-Kóreumenn bregðast harðar við. Hvorki Rússar né Kínverjar hafa tjáð sig um atvikið enn sem komið er.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.