Erlent

Evrópuleiðtogar hafna hugmyndum Johnson

Kjartan Kjartansson skrifar
Barnier (t.v.) og Juncker (t.h.) heilsast með virktum í Evrópuþinginu. Þeim hugnast ekki hugmyndir nýja breska forsætisráðherrans.
Barnier (t.v.) og Juncker (t.h.) heilsast með virktum í Evrópuþinginu. Þeim hugnast ekki hugmyndir nýja breska forsætisráðherrans. Vísir/EPA
Tillaga Boris Johnson, nýs forsætisráðherra Bretlands, um að afnema ákvæði um svonefnda baktryggingu um landamæri á Írlandi úr útgöngusamningi við Evrópusambandið er óásættanleg, að mati Michels Barnier, aðalsamningamanns sambandsins. Leiðtogar ESB hafa tekið fálega í hugmyndir Johnson.

Í fyrstu ræðu sinni í breska þinginu í gær sagði Johnson að hann ætlaði sér að fella út ákvæðið um baktrygginguna. Í henni felst að viðskiptareglur Evrópusambandsins gildi áfram á Norður-Írlandi eftir útgönguna þar til samið hefur verið um varanlegt fyrirkomulag svo koma megi í veg fyrir að setja þurfi upp hefðbundið landamæra- og tollaeftirlit á mörkum Írlands og Norður-Írlands.

„Ekkert ríki sem metur sjálfstæði sitt, og í reynd sjálfsvirðingu sína, gæti fallist á samning þar sem það afsalaði sér efnahagslegu sjálfstæði okkar og fullveldi eins og þessi baktryggingin gerir,“ sagði Johnson við þingheim.

Þegar Johnson ræddi við Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í síma í gær lagði Juncker áherslu á að útgöngusamningurinn sem þegar liggur fyrir væri sá besti sem Bretum standi til boða. Opnaði Juncker þó á möguleikann á frekari viðræðum á næstu vikum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Barnier tók í sama streng þrátt fyrir að hann teldi hugmynd Johnson um að fella út baktrygginguna óviðunandi. Sambandið væri opið fyrir hugmyndum Breta sem hægt væri að samræma núverandi útgöngusamningi. Þeim samningi var hafnað í þrígang í breska þinginu sem leiddi til afsagnar Theresu May sem forsætisráðherra.

Johnson hefur heitið því að Bretland gangi úr Evrópusambandinu 31. október eða jafnvel fyrr. Hann hefur jafnframt sagst tilbúinn að gera það án útgöngusamnings takist honum ekki að herja betra samkomulag út úr evrópskum ráðamönnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×