Innlent

Hitabylgjan nær til Norðausturlands í dag og líklegt að hiti fari yfir 25 stig

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Áhrif hitabylgjunnar í Evrópu gætir á Norðausturlandi í dag.
Áhrif hitabylgjunnar í Evrópu gætir á Norðausturlandi í dag. Vísir/Vilhelm
Íslendingar geta vænst þess að áhrif hitabylgjunnar sem gengur nú yfir Skandinavíu og Evrópu gæti hér á landi eftir helgi en samkvæmt Veðurstofunni gætir áhrifa hitabylgjunnar strax á Norðausturlandi í dag og er líklegt að hitinn fari yfir 25 stig þegar mest verður.

Í pistli veðurfræðings kemur fram að mjög hlýr loftmassi verði yfir landinu næstu daga og líklegt að nokkur hitamet falli. Í dag eru austan og suðaustlægar áttir, þurrt og bjart að mestu norðanlands, rigning eða súld sunnanlands en einnig fyrir vestan síðar í dag.

„Hæsti hiti sumarsins til þessa mældist 12. júní á Skarðsfjöruvita eða 25,3 gráður og gaman að fylgjast með hvort hærri hiti muni mælast í dag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Á morgun lítur út fyrir að hiti fari yfir 20 stig í flestum landshlutum en mun svalara verður austan til á landinu og við Húnaflóa þar sem þokubakkar ráða ríkjum.

„Talsverður óstöðugleiki verður í loftmassanum yfir suðvestanverðu landinu og aukast þá líkurnar á þrumuveðri með tilheyrandi hellidembum.“

Hér má sjá veðurspá fyrir landið í dag klukkan 18:00 en tuttugu og tveggja stiga hita er spáð norðaustanlands.Veðurstofan

Tengdar fréttir

Hitabylgjan nær til Íslands eftir helgi

Hitabylgjan sem nú gengur yfir Skandinavíu og Evrópu nær að öllum líkindum til Íslands á mánudag eða þriðjudag með hitatölum upp í 23 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×