Innlent

Hitabylgjan nær til Íslands eftir helgi

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Enn fleiri hitamet féllu í Skandinavíu og Evrópu í dag vegna hitabylgjunnar sem nú gengur yfir. Íslendingar mega vænta þess að áhrif hitabylgjunnar gæti hér á landi eftir helgi.

Ekkert lát er á hitabylgjunni sem gengur yfir Skandinavíu og Evrópu. Dagsgömul hitamet féllu víða en að auki er hitinn farinn að hafa áhrif á samgöngur, til að mynda í Frakklandi þar sem lestarsamgöngur féllu niður í fjöl förnustu lestarstöð landsins, vegna rafmagnsleysis, og setti ferðaáætlanir þúsunda farþega í uppnám.

Hitamet féllu í fimmtíu borgum í Frakklandi í dag, að París meðtaldri og svipaða sögu er að segja frá Þýskalandi. Viðvörun hefur verið gefin út og áætlað að 85% landsmanna hafi orðið fyrir beinum áhrifum vegna hitans. Nokkur dauðföll hafa verið tilkynnt til yfirvalda.

Sumarið í ár á Íslandi hefur verið mjög gott.Vísir/Vilhelm

Hitabylgjan nær til Íslands eftir helgi

Gott veður hefur verið á allflestum stöðum hér heima á Íslandi í sumar. Veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að hitabylgjan í Skandinavíu og Evrópu muni hafa áhrif hér á landi eftir helgi.

„Við búumst við að það verði einhver hiti sem skili sér hingað til lands eftir helgi. kannski svona mánudag eða þriðjudag. Nú hafa verið að falla hitamet í Bretlandi og alveg norður til Edinborgar og í Frakklandi, París, Cambridge og Þýskaland, Holland og Lúxemborg og Belgía og við fáum okkar svona smá skerf af þessu ef spár gang eftir, eftir helgi,“ segir Páll Ágúst Þórarinsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Hvaða hitatölur gætum við séð?

Við erum að horfa á svona tuttugu stig og hærra, tuttugu og tvö, tuttugu og þrjú stig á ansi mörgum stöðum. Suðurlandi, uppsveitir, Vesturlandi og uppsveitir og jafnvel eitthvað norður í land. Þá eina sem fær kannski ekki almennilegan hita er Norðvesturland,“ segir Páll.

Og miðað við þessi orð má þá vænta að sú gula baði landsmenn með geislum?

„Nei, það er ekkert endilega útlit fyrir það akkúrat. Það gæti verið að það fylgi þessi svolítil væta um sunnanvert landið og kannski eitthvað upp með vesturlandi. Ef að það gengur eftir að þá verður hlýtt og rakt,“ segir Páll


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×