Erlent

Trump sagði umdæmi þingmanns "ógeðslegt og morandi í rottum og nagdýrum“

Eiður Þór Árnason skrifar
Trump sakaði Cummings einnig um að níðast á sér.
Trump sakaði Cummings einnig um að níðast á sér. Vísir/AP
Trump fór ófögrum orðum um umdæmi þingmannsins Elijah Cummings á Twitter í gær þar sem Trump sagði umdæmi hans í Marylandríki vera „ógeðslegt og morandi í rottum og nagdýrum.“

Cummings er þingmaður Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og formaður eftirlitsnefndar fulltrúadeildarinnar. Hann hefur gagnrýnt Trump harðlega í gegnum tíðina, meðal annars innflytjendastefnu ríkisstjórnar hans.

Eftirlitsnefnd þingsins hefur undir formennsku Cummings staðið fyrir ýmsum rannsóknum á Trump og fjölskyldu hans, Bandaríkjaforseta til mikillar gremju.

Trump sagði jafnframt að aðstæður á syðri landamærum Bandaríkjanna við Mexíkó væru mun betri en í umdæmi þingmannsins. Hann lagði til að Cummings myndi einbeita sér frekar að eigin umdæmi og „hjálpa til við að hreinsa þennan afar hættulega og skítuga stað.“

Meirihluti íbúa í umdæmi Cummings eru dökkir á hörund og hafa árásir Trump í gær verið tengdar við litarhaft þingmannsins og samsetningu umdæmis hans.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og einn leiðtoga Demókrataflokksins, sagði á Twitter í gær að flokkurinn „hafni rasískum árásum“ á Cummings og sýni þingmanninum stuðning.

Árásir Trump í gær koma einungis nokkrum vikum eftir að hann var gagnrýndur fyrir að segja fjórum þingkonum Demókrata að fara aftur til síns heima.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×