Íslenski boltinn

Leikmaður Víkings varð bikarmeistari í hástökki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Örvar vippar sér yfir rána.
Örvar vippar sér yfir rána. mynd/frí

Örvari Eggertssyni, leikmanni Víkings R. í Pepsi Max-deild karla, er fleira til lista lagt en að spila fótbolta.

Örvar gerði sér lítið fyrir og vann sigur í hástökki í bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands utanhúss í Kaplakrika í gær. Einar Guðnason, aðstoðarþjálfari Víkings, benti á þessa skemmtilegu staðreynd á Twitter.


Örvar, sem keppti fyrir FH, hafði betur í baráttu við ÍR-inginn Benjamín Jóhann Johnsen. Þeir stukku báðir yfir 2,01 metra. Benjamín felldi hins vegar 1,95 metra einu sinni og því var sigurinn Örvars.

Örvar stökk í fyrsta sinn yfir tvo metra í gær. mynd/frí

Hann stórbætti sinn besta árangur í hástökki. Gamla metið hans var 1,83 metrar sem hann náði fyrir þremur árum.

Örvar á ekki langt að sækja frjálsíþróttahæfileikana en foreldrar hans, Eggert Bogason og Ragnheiður Ólafsdóttir, voru bæði afreksfólk í frjálsum.

Auk þess að vinna hástökkið fagnaði Örvar bikarmeistaratitli með félögum sínum í FH. Fimleikafélagið fékk 135 stig en ÍR 118 stig.

Það er skammt stórra högga á milli hjá Örvari því annað kvöld mæta hann og félagar hans í Víkingi Breiðabliki í 14. umferð Pepsi Max-deildarinnar.

Örvar, sem er tvítugur, hefur leikið átta leiki í deild og bikar með Víkingum í sumar.

Örvar í leik með Víkingi R. gegn Víkingi Ó. síðasta sumar. vísir/vilhelm

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.