Innlent

Ís í Efsta­dal II það eina sem börnin níu eiga sam­eigin­legt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
E.coli bakterían er rakin til Efstadals II í Bláskógabyggð.
E.coli bakterían er rakin til Efstadals II í Bláskógabyggð. vísir/mhh
Sóttvarnalæknir og aðrir opinberir aðilar sem haft hafa til rannsóknar e.coli smit sem rekja má til ferðaþjónustubæjarins Efstadals II í Bláskógabyggð vilja árétta að ekki sé hægt að fullyrða að þau níu börn sem smituðust af e.coli á bænum hafi sýkst af umgengni við kálfa sem þar voru í stíu og hægt var að klappa.

 

Að því er fram kemur á vef landlæknis í dag er áréttingin send út vegna þess að „fréttum og viðtölum við staðarhaldara á ferðaþjónustubænum Efstadal 2 í gær 9.7.2019 um smit og smitleiðir E. coli (STEC) á bænum mátti skilja, að rannsóknarniðurstöður hafi sýnt að börnin sem sýktust á bænum hafi smitast vegna umgangs við kálfa en ekki af neyslu matvæla á bænum.“

Alls hafa tíu börn greinst með e.coli sýkingar síðustu daga. Í tilkynningu á vef landlæknis segir að það eina sem níu af þessum börnum eigi sameiginlegt sé neysla á ís í Efstadal II en eitt barnanna smitaðist af systkini.

Þá hafði helmingur barnanna ekki verið í tengslum við kálfa á staðnum en bakteríurannsóknir hafa sýnt að kálfar á staðnum báru sömu bakteríur og sýktu börnin.

Þær bakteríur sem sýktu börnin fundust ekki í ís á staðnum en sá ís var ekki hinn sami og börnin höfðu borðað þar sem ný framleiðsla var komin í sölu. Fleiri bakteríurannsóknir standa síðan yfir, meðal annars á starfsfólki staðarins.

„Af ofangreindu má því sjá að ekki er hægt að fullyrða að börnin hafi sýkst af umgengni við kálfa. Mögulegar smitleiðir á bænum eru margar en sterkustu faraldsfræðilegu tengslin eru við ís sem framleiddur var á staðnum.

Aðgerðir og ráðstafanir sem gripið var til beinast einmitt að því að rjúfa þessar smitleiðir með því að stöðva framleiðslu á ís og samgangi við kálfa á staðnum, og skerpa á vinnureglum og hreinlæti. Nánari upplýsingar um aðgerðir og ráðstafanir í Efstadal 2 má fá hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og Matvælastofnun.

Sóttvarnalæknir hefur einnig sett sig í samband við Safetravel.is og Samtök ferðaþjónustunnar um að koma nauðsynlegum upplýsingum til ferðamanna sem heimsótt hafa Efstadal 2 og kunna að hafa smitast. Einnig hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) verið upplýst eins og alþjóðalög kveða á um,“ segir á vef landlæknis.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×