Fótbolti

Afgreiddi FH fyrir tveimur árum og er enn aðalmaðurinn hjá Maribor

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tavares í leik Maribor og Liverpool í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu 2017.
Tavares í leik Maribor og Liverpool í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu 2017. vísir/getty
Í annað sinn á þremur árum mætir Maribor íslensku liði í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Valur tekur á móti Maribor í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppninnar í kvöld. Seinni leikurinn fer fram í Maribor í Slóveníu eftir viku.

Árið 2017 mætti Maribor FH í 2. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar. Slóvenska liðið vann báða leikina 1-0 og fór svo alla leið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Brasilíumaðurinn Marco Tavares skoraði í báðum leikjunum gegn FH fyrir tveimur árum. Hann er enn í fullu fjöri þrátt fyrir að vera orðinn 35 ára.





Tavares hefur leikið með Maribor síðan 2008 og verið fyrirliði liðsins síðan 2009. Hann er leikja- og markahæstur í sögu félagsins og markahæstur í sögu slóvensku úrvalsdeildarinnar.

Tavares hefur átta sinnum orðið slóvenskur meistari með Maribor og fjórum sinnum bikarmeistari. Þá hefur hann átt stóran þátt í þeim góða árangri sem liðið hefur náð í Evrópukeppnum á undanförnum árum. Frá 2011 hefur Maribor tvisvar sinnum komist í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og tvisvar sinnum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Tavares hefur tvisvar sinnum verið valinn besti leikmaður slóvensku deildarinnar og þrisvar sinnum verið markakóngur hennar.

Tavares í skallaeinvígi við Kristján Flóka Finnbogason í leik FH og Maribor fyrir tveimur árum.vísir/andri marinó
Meðal annarra sterkra leikmanna hjá Maribor má nefna Luka Zahović, markakóng slóvensku deildarinnar undanfarin tvö ár.

Zahović er sonur Zlatkos Zahović sem er yfirmaður knattspyrnumála hjá Maribor. Zlatko Zahović var frábær leikmaður á sínum tíma, átti sín bestu ár í portúgölsku deildinni og átti stærstan þátt í því Slóvenía komst á EM 2000 og HM 2002.

Zahović eldri er markahæstur í sögu slóvenska landsliðsins með 35 mörk. Þrjú þeirra komu á EM 2000. Hann var hins vegar sendur heim af HM 2002 eftir að hafa móðgað landsliðsþjálfarann, Srečko Katanec.

Leikur Vals og Maribor hefst klukkan 20:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Þá verður hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×