Íslenski boltinn

Fyrirliði Vals segir að íslenskt lið muni komast í Meistaradeildina

Anton Ingi Leifsson skrifar

Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Íslandsmeistara Vals, segir að Valsmenn ætli sér að slá slóvenska liðið Maribor úr keppni er liðin mætast í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Fyrri leikur liðanna fer fram á Origo-vellinum að Hlíðarenda í kvöld og segir fyrirliðinn að það sé enginn bilbugur á Valsmönnum að finna.

„Við eigum klárlega möguleika og ætlum okkur áfram úr þessu einvígi,“ sagði Haukur Páll fyrir æfingu Vals í gær.

„Við viljum ná langt í Evrópu í ár og þá þurfum við að vinna þetta lið í tveimur leikjum. Við getum það klárlega.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Maribor mætir íslensku liði því fyrir tveimur árum sló Maribor FH úr keppni, samanlagt 2-0.

„Það eru gloppur í þeirra leik eins og við sáum. Þeir eru að byrja sitt tímabil núna og eru ekki í fullri leikæfingu. Það á kannski eftir að hjálpa okkur smá.“

Íslenskt lið hefur ekki aldrei komist í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en hvað þurfa íslensk lið að gera til þess að komast í riðlakeppnina?

„Það er samspil nokkurra hluta. Þú þarft að eiga algjöran toppleik á leikdegi þegar liðin mætast og það er margt sem spilar inn í en það mun gerast,“ sagði fyrirliðinn.

Leikur Vals og Maribor hefst klukkan 20.00 í kvöld en leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.