Íslenski boltinn

Rúnar segir möguleikana ágæta og reynsluboltinn Baldur vonast til að skapa góða Evrópuminningu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Stjarnan mætir eistneska liðinu Levadia Tallinn í kvöld á Samsung-vellinum í Garðabæ en leikurinn er fyrri leikur liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Þetta er annað árið í röð sem Stjörnumenn mæta liði frá Eistlandi en í fyrra slógu þeir út Nomme Kalju. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, segir þó að liðið í ár sé ívið sterkara en liðið í fyrra séu möguleikarnir ágætir.

„Möguleikarnir eru ágætir. Við mættum mjög svipuðu liði í fyrra og þetta lið er ívið sterkara. Við þurfum að eiga okkar besta leik og besta dag til þess að fara áfram í þessari keppni,“ sagði Rúnar Páll í samtali við Arnar Björnsson.

„Við erum að mæta mjög sterku liði. Þeir eru ákveðnir og eru öflugir. Þeir eru duglegir, vilja halda boltanum og hægri vængurinn þeirra er mjög sterkur. Við þurfum að varast það.“

Stjarnan býr svo vel að eiga reynslubolta innan borðs. Einn þeirra er fyrirliðinn Baldur Sigurðsson en veit hann hversu marga Evrópuleiki hann hefur spilað?

„Já. Þeir eru 37, svo þeir eru orðnir nokkrir. Þetta er alltaf mikil tilhlökkun og maður hefur upplifað ýmislegt í þessu.“

„Dottið út í fyrstu umferð og komist áfram nokkrar umferðir. Maður hefur unnið veikari lið og líka flott lið.“

„Þegar maður horfir til baka á þessa leiki þá eru þetta býsna góðar minningar úr svona Evrópuleikjum, svo ég vona við getum skapað góða minningu hérna á morgun,“ sagði Baldur.

Leikur Stjörnunnar og Tallinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst klukkan 20.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×