Fótbolti

Indverji kominn upp fyrir Lionel Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Sunil Chhetri.
Lionel Messi og Sunil Chhetri. Vísir/Samsett/Getty

Lionel Messi er ekki lengur næsti maður á eftir Cristiano Ronaldo á listanum yfir markahæstu landsliðsmenn heims sem eru enn að spila með landsliðum sínum.

Cristiano Ronaldo er með örugga forystu á listanum enda hefur hann skorað tuttugu fleiri landsliðsmörk en Messi.

Messi náði aðeins að skora eitt mark á Copa America og fór heim í reiðikasti út í dómara keppninnar eftir að argentínska landsliðið datt út í undanúrslitum á móti Brasilíu. Messi er nú kominn með 68 mörk fyrir argentínska landsliðið en Ronaldo er með 88 mörk.

Indverjinn Sunil Chhetri nýtti tækifærið og tók annað sætið af Lionel Messi. Þeir voru jafnir í öðru sæti en Chhetri breytti því um helgina.

Sunil Chhetri skoraði þá tvö mörk fyrir Indland á móti Tadsíkistan í opnunarleik Intercontinental Cup 2019.Fyrra markið skoraði Chhetri úr „Panenka“ vítspyrnu en hann bætti síðan öðrum marki við fyrir hálfleik. Indverska landsliðið komst í 2-0 en tapaði leiknum 4-2 eftir hrun í seinni hálfleik.

Chhetri er 34 ára gamall og á einnig leikjametið hjá Indlandi. Leikurinn á móti Tadsíkistan var hans 109. landsleikur.

Sunil Chhetri hefur spilað með Bengaluru í heimalandinu frá 2013 en var reyndar lánaður til Mumbai City árið 2015. Chhetri hefur reynt fyrir sér í Bandaríkjunum og Portúgal en með litlum árangri og hann var fljótur að koma sér aftur heim til Indlands.

Sunil Chhetri hefur skorað landsliðsmark á hverju ári frá og með árinu 2007 en fyrsta landsliðsmark hans leit dagsins ljós árið 2005. Hann skoraði mest 13 mörk í 17 leikjum árið 2011.

Sunil Chhetri er með 5 mörk í 5 landsleikjum á þessu ári og fær nú tækifæri til að bæta við fleiri mörkum á Intercontinental Cup. Næsti leikur liðsins er á móti Norður-Kóreu 13. júlí næstkomandi en síðasti leikurinn í riðlinum er síðan við Sýrland.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.