Erlent

Stærsti ísjaki heims á hraðri hreyfingu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Suðurskautslandið. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Suðurskautslandið. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Vísir/Getty
A68, stærsti ísjaki veraldar, er á norðurleið. Tvö ár eru síðan jakinn brotnaði frá Suðurskautslandinu.

Gervihnattarmyndir sýna að A68, sem er um 160 kílómetrar að lengd, hefur á undanförnum mánuðum snúist um Weddel-haf og færist nú norður með fram nyrsta skaga Suðurskautslandsins.

Um tíma leit út fyrir að jakinn hefði strandað á grynningum, en nú er hann kominn aftur á fulla ferð.

Í samtali við BBC sagði Adrian Luckman jöklafræðingur að miðað við stærð og þyngd jakans væru ferðir hans hraðar.

„Eftir að hafa, í heilt ár, verið nokkuð nálægt staðnum sem hann brotnaði frá, lenti A68 um mitt ár 2018 í Weddel-straumnum, réttsælum hafstraumi sem sneri ísjakanum 270 gráður og bar 250 kílómetra norður,“ sagði Luckman.

„Ísjakinn er 160 kílómetrar að lengd en aðeins 200 metrar að þykkt, hlutföll ekki ósvipuð kreditkorti, því kemur á óvart hversu óskaddaður hann hefur komist í gegnum ferðalag sitt hingað til.“

Vísindamenn fylgjast nú grannt með ferðum A68 með hjálp gervihnattarmynda.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×