Innlent

Yfirlýsing ritstjórnar: Umfjöllun um mótmæli

Ritstjórn skrifar
Frá mótmælunum í Krónunni í gær.
Frá mótmælunum í Krónunni í gær.
Í DV í dag er því haldið fram að mótmæli grænkera í matvöruverslun í gær hafi verið „að hluta til skipulögð af fréttastofu Stöðvar 2.“ Þetta er rangt eins og kemur fram síðar í sömu frétt DV.

Líkt og fram kemur í viðtali DV við Vigdísi Þórðardóttur, veganaktívista, þá var um að ræða misskilning milli hennar og parsins sem kallar sig That Vegan Couple, sem ferðast milli landa og mótmælir kjötáti. Þau hafa nú leiðrétt þennan misskilning í texta færslna sinna á samfélagsmiðlum.

Aldrei kom til greina að hálfu nokkurs starfsmanns fréttastofu annað en að fjalla um mótmælin líkt og fjallað er um aðra atburði líðandi stundar. Vigdís staðfestir að aðgerðasinnar standi fyrir mótmælum á eigin forsendum og að upphaflegur texti parsins hafi verið byggður á misskilningi.

Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar starfar eftir ritstjórnarstefnu sem leggur áherslu á að fréttastofan hafi sannleikann að leiðarljósi. Sviðsetning frétta er í algjörri andstöðu við þá stefnu og um ekkert slíkt var að ræða í þessu tilfelli.

Þórir Guðmundsson

ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×