Erlent

Þrír dæmdir til dauða fyrir Marokkó-morðin

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þrír liðsmenn samtaka sem kenna sig við íslamskt ríki voru í dag dæmdir til dauða fyrir morðin á tveimur ungum norrænum konum.
Þrír liðsmenn samtaka sem kenna sig við íslamskt ríki voru í dag dæmdir til dauða fyrir morðin á tveimur ungum norrænum konum.
Þrír menn voru í Marokkó í dag dæmdir til dauðarefsingar fyrir að hafa orðið tveimur norrænum háskólanemum að bana í desember á síðasta ári.

Morðin á hinni norsku Maren Ueland, 28 ára, og hinni dönsku Louisu Vesterager Jespersen, 24 ára, vöktu mikla athygli á sínum tíma og komu illa við samvisku heimsbyggðarinnar en í desember á síðasta ári réðust fjórir menn á ungu konurnar og myrtu þær með hrottafengnum hætti.

Þær Ueland og Jespersen voru saman á bakpokaferðalagi um landið og höfðu tjaldað í hlíðum Toubkal-fjalls í Atlasfjöllum suður af Marrakech. Þær fundust síðan látnar í hlíðum fjallsins mánudaginn 17. desember. Einn ódæðismannanna tók morðin upp á myndband en það fór síðar í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Louisa Vesterager Jespersen, 24 ára, og Maren Ueland, 28 ára, fundust látnar í Marokkó þann 17. desember síðastliðinn.Myndir/Facebook
Danski ríkisfjölmiðillinn greinir frá því að þremenningarnir hafi játað fyrir dómi að hafa orðið konunum að bana. Það hafi þeir gert með stuðningi hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Viku áður en höfuðpaurarnir létu til skarar skríða höfðu þeir svarið samtökunum hollustueið.

Frá upphafi var talið að fjórir hefðu ráðist á konurnar en hinn fjórði fékk ekki dauðarefsingu en hann hlaut aftur á móti lífstíðarfangelsi. Aðrir tuttugu voru ákærðir í tengslum við Marokkó-morðin en þeir hlutu ýmist 5-25 ára fangelsisdóma í dag. Fyrir dómi sögðust nokkrir þeirra vera saklausir. Eina ástæðan fyrir því að þeir hefðu verið ákærðir séu tengsl þeirra við höfuðpauranna.

Þrátt fyrir að mennirnir hafi hlotið dauðadóm í dag er alls óvíst að þeim dómi verði nokkurn tímann framfylgt. Þannig hefur enginn dauðadæmdur fangi verið tekinn af lífi í Marokkó frá árinu 1993 þrátt fyrir að um hundrað fangar sem hafa hlotið dauðadóm séu nú í fangelsum landsins.


Tengdar fréttir

Dauða­dóms krafist: „Verri en skepnur“

Lögmaður fjölskyldu annarrar norrænu kvennanna, sem myrtar voru í Marokkó í desember síðastliðinn, segir að saksóknarar komi til með að fara fram á að sakborningar verði dæmdir til dauða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×