Fótbolti

Ekkert félag í heimi betra en Juventus í að fá góða leikmenn fyrir lítið eða ekkert

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Juve fagna sigri í ítölsku deildinn áttunda tímabilið í röð.
Leikmenn Juve fagna sigri í ítölsku deildinn áttunda tímabilið í röð. Getty/Marco Canoniero
Á tímum þar sem knattspyrnumenn verða dýrari og dýrari með hverju árinu er eitt félag í heiminum sem kann þá list betur en aðrir að fá leikmenn til sín á kostakjörum.

Franski miðjumaðurinn Adrien Rabiot er sá nýjasti sem fer til Juventus á frjálsri sölu en fyrr í sumar fékk Juve Arsenal-manninn Aaron Ramsey á frjálsri sölu.

Adrien Rabiot kemur til Juventus frá franska félaginu Paris Saint Germain. Fjöldi annarra félaga hafði áhuga á að fá hann til síns en Rabiot valdi ítölsku meistarana.

Stuðningsmenn Arsenal sjá örugglega mikið eftir Aaron Ramsey sem náði ekki samkomulagi við enska félagið um framlengingu á sínum samningi. Þess í stað mun Aaron Ramsey nú reyna fyrir sér í ítalska boltanum.

Aaron Ramsey og Adrien Rabiot bætast þar með í glæsilegan hóp leikmanna sem komið hafa frítt til Juventus eða fyrir mjög lítinn pening.

Bleacher Report Football hefur tekið alla þessa leikmenn saman og sett upp á grafíska mynd eins og sjá má hér fyrir neðan. Þetta er orðinn afar myndarlegur hópur.





Juventus borgaði vissulega Real Madrid risaupphæð fyrir Cristiano Ronaldo en margir aðrir stjörnuleikmenn liðsins hafa komið fyrir lítið.

Meðal þeirra sem hafa komið frítt eru menn eins og Fabio Cannavaro, Andrea Pirlo, Paul Pogba, Fernando Llorente, Kingsley Coman, Sami Khedira, Dani Alves, Emre Can og nú síðast þeir Aaron Ramsey og Adrien Rabiot.

Það er ekki hægt annað en að hrósa forráðamönnum ítalska félagsins fyrir útsjónarsemi sína og það eru þessi viðskipti sem eiga eflaust mikinn þátt í því að Juve hefur orðið ítalskur meistari átta tímabil í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×