Erlent

Ríkisstjórn Botsvana áfrýjar úrskurði Hæstaréttar um samkynhneigð

Andri Eysteinsson skrifar
Forseti Botsvana hefur talað fyrir réttindum samkynhneigðra en dómsmálaráðherra hans vill snúa dæminu við.
Forseti Botsvana hefur talað fyrir réttindum samkynhneigðra en dómsmálaráðherra hans vill snúa dæminu við. Getty/Bloomberg
Ríkisstjórn Afríkuríkisins Botsvana mun áfrýja úrskurði hæstaréttar ríkisins sem afglæpavæddi samkynhneigð í landinu. Nái ríkisstjórnin sínu fram við áfrýjunardómstólinn gætu lögin um samkynhneigð, sem eru frá nýlendutímanum, fengið gildi að nýju. Reuters greinir frá.

Þá yrði kynlíf samkynhneigðra til að mynda saknæmt og verði einhver uppvís af því að stunda þá iðju má sá hinn sami eiga von á allt að sjö ára fangelsi fyrir athæfið.

Málið var lagt fyrir hæstarétt fyrr á árinu af háskólanemanum Letswletse Motshidiemang og var úrskurður réttarins á þá vegu að lögin stæðust ekki stjórnarskrá þar sem að í þeim fólst röskun á einkalífi auk þess að frelsi einstaklingsins var virt að vettugi.

Dómsmálaráðherra Botsvana, Abraham Keetshabe, sagði hins vegar í yfirlýsingu sinni að hæstarétti hafi orðið á mistök.

„Ég er þeirrar skoðunar að ákvörðun réttarins sé mistök og mun því áfrýja til áfrýjunardómstóls“ sagði Keetshabe.

Botsvana hefur undanfarið viðurkennt hluta réttinda ýmissa hópa úr LGBT samfélaginu og hefur forseti landsins talað fyrir því að að samkynhneigðir ættu að njóta fullra réttinda.

Með ákvörðun hæstaréttar, sem nú er í hættu, varð Botsvana sjötta Afríkuríkið til þess að afglæpavæða kynlíf samkynhneigðra en það hafa Angóla, Seychelles-eyjar, Mósambík, Saó Tóme og Prinsípe og Lesótó einnig gert.

Eina Afríkuríkið þar sem hjónaband samkynhneigðra er löglegt er Suður-Afríka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×