Erlent

Hafna áliti um þátt prinsins í morðinu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mohammed bin Salman prins.
Mohammed bin Salman prins. Nordicphotos/AFP
Adel al-Jubeir, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, hafnaði í gær því sem segir í nýrri skýrslu sérfræðings Sameinuðu þjóðanna um aftökur án dóms og laga, um að raunveruleg sönnunargögn væru fyrir því að Mohammed bin Salman krónprins og aðrir hátt settir embættismenn væru ábyrgir fyrir morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi.

„Þetta er ekkert nýtt. Þessi erindreki mannréttindaráðsins endurtekur í ráðgefandi skýrslu sinni það sama og hefur verið áður birt. Í skýrslunni má finna skýrar þversagnir og tilhæfulausar ásakanir sem draga úr trúverðugleika hennar,“ sagði al-Jubeir.

Skýrsluhöfundur, Agnes Callamard, komst að sögn Reuters að þeirri niðurstöðu að morðið á Khashoggi hefði verið þaulskipulagt. Skýrslan byggir á upptökum og vettvangsgreiningu tyrkneskra rannsakenda og upplýsingum sem hafa komið fram fyrir dómi í Sádi-Arabíu.

Khashoggi skrifaði meðal annars í Washington Post og gagnrýndi krónprinsinn oft harðlega. Hann var myrtur á ræðisskrifstofu Sádi-Araba í tyrknesku borginni Istanbúl í október síðastliðnum. – þea


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×