Fótbolti

Torres leggur skóna á hilluna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Torres varð heimsmeistari með Spánverjum 2010
Torres varð heimsmeistari með Spánverjum 2010 vísir/getty
Fernando Torres hefur ákveðið að leggja fótboltaskóna á hilluna eftir átján ára farsælan feril.

Torres er 35 ára gamall en á ferli sínum spilaði hann með Atletico Madrid, Liverpool, Chelsea, AC Milan og nú síðast með Sagan Tosu í Japan.

Spánverjinn á að baki 110 A-landsleiki og var hann í liðinu sem vann þrjú stórmót í röð, EM 2008, HM 2010 og EM 2012.





Torres ætlar að halda blaðamannafund á sunnudag þar sem hann fer yfir ákvörðun sína.

Framherjinn byrjaði feril sinn hjá Atletico Madrid en var seldur til Liverpool fyrir 20 milljónir punda árið 2007. Hann náði sér vel á strik í Bítlaborginni, skoraði 81 mark í 142 leikjum.

2011 var hann seldur til Chelsea fyrir 50 milljónir punda, sem á þeim tíma var hæsta kaupverð á leikmanni á Bretlandseyjum. Hjá Chelsea náði hann ekki sama forminu og í Liverpooltreyjunni en hann vann þó Meistaradeild Evrópu með félaginu árið 2012.

Í desember 2014 snéri hann aftur til uppeldisfélagsins, eftir stutt stopp hjá AC Milan á láni, og var þar til 2018 þegar hann fór til Japan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×