Innlent

Síðasti malarkaflinn til Krýsuvíkur malbikaður

Kristján Már Unnarsson skrifar
Klæðning var lögð á 2,4 km milli Kleifarvatns og Seltúns fyrir sex árum, sumarið 2013.
Klæðning var lögð á 2,4 km milli Kleifarvatns og Seltúns fyrir sex árum, sumarið 2013. Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Síðasti malarkaflinn á leiðinni milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur heyrir brátt sögunni til. Endurbætur eru að hefjast á 1,5 kílómetra kafla Krýsuvíkurvegar þar sem hann liggur um Vatnsskarð. Áður var búið að leggja slitlag á veginn meðfram Kleifarvatni. 

Tvöföld klæðning verður lögð á vegarkaflann og á verkinu að vera lokið fyrir 1. október í haust. Þar með verður loksins komið samfellt bundið slitlag á alla Krýsuvíkurleið milli Reykjavíkursvæðisins og Suðurstrandarvegar. 

Fjögur tilboð bárust í verkið en þau voru opnuð hjá Vegagerðinni í síðustu viku. Lægsta boð átti Vörubifreiðastjórafélagið Mjölnir á Selfossi, upp á 64,4 milljónir króna. Það reyndist 17 prósentum yfir áætluðum verktakakostnaði, sem var upp á 55,1 milljón króna. 

Athygli vekur hvað hin tilboðin voru hátt yfir kostnaðaráætlun. Aðrir sem buðu í verkið voru Borgarverk ehf. í Borgarnesi, 83,2 milljónir króna eða 51% yfir áætlun, Óskatak ehf. í Kópavogi, 93 milljónir króna, eða 69% yfir áætlun, og Ístak hf., sem bauð 100,8 milljónir króna, sem var 83% yfir áætlun. 

Stöð 2 fjallaði um verkefnið sumarið 2013 og má sjá þá frétt hér:


Tengdar fréttir

Malbikið kemur á Krýsuvíkurleið

Einn fjölfarnasti malarvegur landsins, þjóðvegurinn meðfram Kleifarvatni, er að breytast í rennisléttan malbiksveg og þar klárar slitlagsflokkur enn einn kaflann í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×