Fótbolti

Forseti Napoli sendir Sarri pillu: „Hann vann ekkert hjá okkur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
De Laurentiis og Maurizio Sarri á góðri stund.
De Laurentiis og Maurizio Sarri á góðri stund. vísir/getty
Aurelio De Laurentiis, forseti Napoli, skaut á Maurizio Sarri eftir að hann var kynntur sem nýr knattspyrnustjóri Ítalíumeistara Juventus.

Sarri stýrði Napoli á árunum 2015-18 og var í miklum metum hjá stuðningsmönnum liðsins. Þeir höfðu hins vegar lítinn húmor fyrir því þegar hann tók við Juventus og rifu m.a. niður heiðursskjöld hans í Napoli.

„Þetta kemur mér ekki á óvart. Trygglyndi er ekki lengur til í fótboltanum,“ sagði De Laurentiis. „Hann vann ekkert hjá Napoli og kannski vinnur hann ekkert hjá Juventus.“

Sarri vann sinn fyrsta stóra titil á ferlinum þegar hann stýrði Chelsea til sigurs í Evrópudeildinni í vor. Úrslitaleikurinn gegn Arsenal reyndist hans síðasti leikur sem stjóri Chelsea.

Sarri óskaði eftir því að fá að fara til Juventus og Chelsea varð við þeirri bón. Hann tók við Juventus af Massimiliano Allegri.

Juventus hefur orðið ítalskur meistari undanfarin átta ár.


Tengdar fréttir

Heiðursskjöldur Sarri rifinn niður

Stuðningsmenn Napólí eru Maurizio Sarri bálreiðir fyrir að hafa ákveðið að gerast knattspyrnustjóri fjendanna í Juventus og hafa rifið niður minnismerki til heiðurs Sarri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×