Erlent

Mótmælendur brutust fram hjá lögreglu og lokuðu gríðarstórri kolanámu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mótmælendur og lögregla hafa tekist á.
Mótmælendur og lögregla hafa tekist á. Vísir/AP
Hundruð mótmælenda neita að yfirgefa gríðarastóra kolanámu í Rínarlandi í Þýskalandi í mótmælum gegn loftslagsbreytingum. Mótmælendur brutust inn í námuna á föstudaginn. BBC greinir frá.

Lögregla hefur fyrirskipað að mótmælendurnir skuli yfirgefa námuna tafarlaust og segja að aðstæður í Garzweiler-námunni sé lífshættulegar. Mótmælendurnir sitja hins vegar margir hverjir sen fastast. Lögregla hefur þegar fjarlægt nokkra mótmælendur með valdi.

Mótmælendurnir vilja með mótmælasetunni í námunni mótmæla aðgerðarleysi í loftslagsmálum. Yfirvöld í Þýskalandi hafa heitið því að Þýskaland verði kolefnishlutlaust fyrir árið 2050 en mótmælendurnir segja að það sé ekki nóg. Kjósendur hafa margir hverjir miklar áhyggjur af loftslagsmálum en málið er efst á blaði yfir áhyggjur sem kjósendur hafa af málefnum líðandi stundar í Þýskalandi.

Lögregla reyndi að koma í veg fyrir að mótmælendur gætu komist í námuna og beitti hún meðal annars piparúða. Það var hins vegar ekki nóg til að stöðva mótmælendurnar sem brutust fram hjá lögreglu til þess að komast í námuna. Sumir þeirra sitja á járnbrautarteinum til að koma í veg fyrir að kol séu flutt á burt frá námunni.

Mótmælin í námunni eru angi loftslagsmótmæla sem haldin voru í Aachen á föstudaginn þar sem á milli tuttugu til fjörtíu þúsund mótmælendur mótmæltu aðgerðarleysi í loftslagsmálum.

Náman er gríðarstór, eins og sjá má.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×