Erlent

Illinois lögleiðir kannabis

Andri Eysteinsson skrifar
Jay Robert Pritzker, ríkisstjóri Illinois samþykkti lögleiðinguna í dag.
Jay Robert Pritzker, ríkisstjóri Illinois samþykkti lögleiðinguna í dag. AP/Amr Alfiky
J. B. Pritzker, ríkisstjóri Illinois í Bandaríkjunum, stóð í dag við eitt af hans fyrirferðamestu kosningaloforðum þegar hann staðfesti lögleiðingu kannabis í ríkinu. Með nýrri löggjöf varð ríkið ellefta ríki Bandaríkjanna til að taka skrefið og lögleiða neysluskammta af kannabis. AP greinir frá.

Með lögunum geta íbúar ríkisins sem hafa náð 21 árs aldri, frá og með 1. janúar næstkomandi, keypt og haft í fórum sínum allt að 30 grömm af marijúana. Þá er gert ráð fyrir að kannabisviðskipti fari fram á þartilgreindum sölustöðvum og mun ríkið innheimta skatta af framleiðslunni.

Þar til að lögin taka gildi 1. janúar 2020 verður enn óheimilt að hafa í fórum sér kannabis en mögulegt er að lögin hafi áhrif á dóma nær 800.000 manns sem hafa verið sakfelldir fyrir vörslu neysluskammta af efninu.

Ríkisstjórinn J.B. Pritzker, sem er erfingi Hyatt-hótelkeðjunnar og næst efnaðasti embættismaður í sögu Bandaríkjanna á eftir Michael Bloomberg, fyrrum borgarstjóra New York, sagði við undirritunina að stríðið við kannabis hafi ekki haft nein áhrif á neyslu þess.

„Síðustu fimmtíu ár hefur stríði gegn Kannabis eyðilagt fjölskyldulíf og fyllt fangelsin af fólki sem ekki á erindi þangað og sérstaklega haft neikvæð óverðskulduð áhrif á samfélag svartra í ríkinu,“ sagði Pritzker.

Lögreglan í Illinois hefur lýst yfir áhyggjum sínum af fylgifiskur lögleiðingarinnar, þá sérstaklega hvað varðar akstur undir áhrifum. Lögreglan barðist fyrir því, með góðum árangri, að ákvæði sem heimilaði heimaræktun allt að fimm kannabisplantna, yrði fellt niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×