Erlent

Pilturinn dæmdur í ellefu ára fangelsi fyrir morðið á Sunnivu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sunniva Ødegård .
Sunniva Ødegård . Mynd/Norska lögreglan
Átján ára piltur var í dag dæmdur í ellefu ára fangelsi (n. forvaring) fyrir að hafa myrt hina 13 ára Sunnivu Ødegård þann 29. júlí í fyrra. Pilturinn var sautján ára þegar hann framdi morðið í norska bænum Varhaug. Um er að ræða sérstakt fangelsisúrræði í norskum lögum en dómurinn þykir óvenjulegur þar sem drengurinn var undir lögaldri þegar glæpurinn var framinn.

Saksóknari fór fram á 12 ára fangelsi yfir unga manninum og bar fyrir sig að það væri hafið yfir allan vafa að hann hefði framið morðið að yfirlögðu ráði. Þá segir í dómnum að morðið hafi verið hrottalegt, þaulskipulagt og gert í einkar annarlegum, kynferðislegum tilgangi.

Piltinum var einnig gert að greiða foreldrum Sunnivu samtals 500 þúsund norskar krónur, rúmar sjö milljónir íslenskra króna, í miskabætur.

Varðhald fyrir sérstaklega hættulega glæpamenn

Eins og áður segir var pilturinn sautján ára þegar morðið var framið í fyrrasumar. Hann hlaut ekki hefðbundinn fangelsisdóm heldur var hann dæmdur í svokallað forvaring upp á norsku. Ekki er til samsvarandi hugtak í íslensku réttarkerfi en í ritgerð Ernu Aradóttur til BA-prófs í lögfræði er hugtakið skýrt sem „varðhald eða fangelsisvist sem hægt er að framlengja og til þess fallið að vernda samfélagið gegn sérstaklega hættulegum glæpamönnum.“

Í frétt VG segir að dómurinn sé sérstakur þar sem það tíðkist ekki í Noregi að dæma einstakling undir lögaldri til slíkrar afplánunar. Aðeins sé vitað til þess að tvö ungmenni hafi áður hlotið slíkan dóm.

Pilturinn viðurkenndi fyrir dómi að hafa myrt Sunnivu en taldi sig ekki sakhæfan sökum geðræns ástands. Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að drengurinn hefði verið í neyslutengdu geðrofi, sem hann bæri sjálfur ábyrgð á, og þar með væri hann sakhæfur. Í frétt VG segir að áður en dómurinn féll í dag hafi þegar verið ákveðið að áfrýja honum.

Lík Sunnivu fannst skammt frá heimili hennar í Varhaug eftir að hún hafði ekki skilað sér heim eftir heimsókn til vinkonu júlíkvöld í fyrra.

Drengurinn var góðkunningi lögreglunnar. Hann er norskur ríkisborgari sem sleit barnskónum í Varhaug.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×