Erlent

Viðurkennir að hafa orðið Sunnivu að bana

Atli Ísleifsson skrifar
Lík Sunnivu fannst skammt frá heimili hennar eftir að hún skilaði sér ekki heim eftir heimsókn til vinkonu.
Lík Sunnivu fannst skammt frá heimili hennar eftir að hún skilaði sér ekki heim eftir heimsókn til vinkonu. Vísir/EPA/lögreglan
Sautján ára piltur sem er í haldi norsku lögreglunnar hefur viðurkennt að hafa orðið hinni þrettán ára Sunnivu Ødegård að bana í bænum Varhaug í Rogalandi aðfaranótt mánudagsins 30. júlí.

NRK  hefur eftir lögreglu að pilturinn hafi útskýrt við yfirheyrslu að tilviljun hafi ráðið því að Sunnivu hafi verið banað.

„Hann hefur viðurkennt að hann hafi beitt hana ofbeldi,“ segir Lars Ole Berge, talsmaður lögreglu. Á pilturinn að hafa beitt Sunnivu ofbeldi á tveimur stöðum og flutt síðan líkið á þann stað þar sem það fannst á mánudagsmorgninum. Telur lögregla að Sunnivu hafi verið ráðinn bani í steintröppu skammt frá staðnum þar sem lík hennar fannst.

Telur sig hafa fundið morðvopnið

Lögregla telur sig vera með morðvopnið í vörslu sinni. Lík Sunnivu fannst skammt frá heimili hennar eftir að hún heimsótti vinkonu sína sunnudagskvöldið 29. júlí en skilaði sér ekki heim.

Pilturinn hafði áður viðurkennt að hafa brotist inn í nálægan leikskóla á sunnudagskvöldið, en neitað að tengjast dauða stúlkunnar.

Pilturinn er norskur ríkisborgari og hefur lengi verið til heimilis í Varhaug, ekki langt frá heimili Sunnivu.



Finna fyrir létti

Lögmaður fjölskyldu Sunnivu segir í samtali við Verdens Gang  að fjölskyldan finni fyrir miklum létti vitandi það að pilturinn hafi viðurkennt verknaðinn. Enn sé þó spurningum ósvarað, en að gott sé að þetta verði ekki óupplýst sakamál.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×