Enski boltinn

Samningur David Moyes og Manchester United átti að renna út í þessari viku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Moyes á blaðamannafundi þegar hann var enn knattspyrnustjóri Manchester United.
David Moyes á blaðamannafundi þegar hann var enn knattspyrnustjóri Manchester United. Getty/Matthew Peters
David Moyes hefði enn átt eftir fimm daga af upprunalegum samningi sínum við Manchester United ef upprunalegi samningurinn frá 2013 hefði haldið.

Sir Alex Ferguson hætti með lið Manchester United í júlí 2013 og við tók landi hans David Moyes. Síðan hefur oft verið erfitt að vera stuðningsmaður Manchester United.

David Moyes gat varla tekið að sér erfiðara starf en að setjast í stjórastól Sir Alex sem hafði unnið 38 titla með Manchester United á 26 árum.

Ferguson hafði hins vegar mælt með David Moyes og félagið ákvað að gera við Skotann ótrúlegan sex ára samning eða frá 1. júlí 2013 til 30. júní 2019.

David Moyes keypti meðal annars Marouane Fellaini þetta sumar en fyrsta tímabilið var hrein hörmung. Sex töp á Old Trafford gerðu líklega út um hans stjóratíð hjá Manchester United og Moyes entist bara tíu mánuði í starfinu.





Þegar Manchester United lét hann fara 22. apríl 2014 þá voru enn fimm ár og tveir mánuðir eftir af samningum hans. United keypti upp samninginn á fimm milljónir punda eða 792 milljónir íslenskra króna.

David Moyes er atvinnulaus í dag en reyndi fyrir sér hjá Real Sociedad, Sunderland og West Ham eftir tíma hans hjá Manchester United.

Manchester United hefur líka gengið illa að finna sér framtíðarstjóra og bæði Louis van Gaal né Jose Mourinho hafa verið látnir fara frá félaginu. Nú er það undir Ole Gunnar Solskjær að koma Manchester United aftur upp í titilbaráttuna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×