Fótbolti

Þrjú ár frá kvöldinu ógleymanlega í Nice

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Víkingaklappið sem heyrðist út um allan heim. Ótrúleg stund í Nice.
Víkingaklappið sem heyrðist út um allan heim. Ótrúleg stund í Nice. vísir/getty
27. júní árið 2016 er stjörnumerktur dagur í íslenskri knattspyrnusögu sem og í hjörtum Íslendinga. Þá vann Ísland frækinn sigur á Englandi í Hreiðrinu í Nice. Kvöld sem aldrei gleymist.

Yfir 3.000 Íslendingar voru á leiknum í Frakklandi og hinir Íslendingarnir virtust allir vera á Arnarhóli að horfa á leikinn. Þarna var stemning sem íslenska þjóðin hafði aldrei upplifað áður eins og lesa má um í skemmtilegri grein hér.

Okkar menn í Frakklandi tóku leikdaginn snemma og hituðu upp í rjómablíðu í Nice. Þá var strax eitthvað í loftinu. EM í dag var tekið upp rétt hjá þar sem Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, hafði verið í göngutúr daginn fyrir leik í stað þess að undirbúa sig. Það var hroki í enskum.





Enginn gleymir svo leiknum sjálfum. Ensku hrokagikkirnir komust yfir snemma leiks en þeir Ragnar Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu mörk íslenska liðsins og skutu íslenska liðinu í átta liða úrslit.

Vonbrigði Englendinga voru mikil. Enn eina ferðina. Langbesta myndbandið, og þá meina LANGbesta, frá leiknum er af Steve McClaren, fyrrum landsliðsþjálfara Englands, að lýsa leiknum.

Svipbrigði hans er Kolbeinn kemur Íslandi yfir eru engu lík. Margir Íslendingar horfa á þetta oft á ári og hlæja alltaf jafn mikið. Skiljanlega. Þetta er ekkert eðlilega fyndið.





Eins og við mátti búast voru engin vettlingatök hjá breskum blaðamönnum sem hökkuðu enska liðið í sig. Það leiddist Íslendingum ekki að sjá.





























Tómas Þór Þórðarson skrifaði um leikinn og eðli málsins samkvæmt fengu strákarnir frábærar einkunnir hjá Vísismönnum í Nice. Raggi Sig var þó bestur og vildu margir að Liverpool keypti hann strax daginn eftir. Liverpool keypti vissulega Ragnar en rangan Ragnar. Sá hét Ragnar Klavan.

Afrek íslenska liðsins ómaði út um allan heim og heimsbyggðin stóð á bak við íslenska liðið. Flottasta myndin eftir leik kom þó frá Bleacher Report og lifir enn í minningunni. Þetta er list.





Þeir sem voru í Hreiðrinu í Nice munu aldrei gleyma þessu kvöldi. Þar var gleði langt fram eftir kvöldi og gleði Íslendinga kristallaðist hvað best í þessum ógleymanlega dansi hjá Dorrit forsetafrú og Eggerti Magnússyni, fyrrum formanni KSÍ. Stórbrotið.





Gleðin hélt áfram fyrir utan völlinn og Íslendingarnir vildu helst ekkert fara heim. Þeir vildu bara flytja á völlinn. Kolbeinn Tumi Daðason tók púlsinn á stuðningsmönnum Íslands strax eftir leik.





Kolbeinn Tumi gerði svo leikinn upp með Tómasi Þór inn á vellinum en þeim félögum var fljótlega hent út. Það skyggði þó ekkert á gleðina og öll brosin.





Eins og áður segir vakti þetta afrek íslenska knattspyrnulandsliðsins heimsathygli. Allir stærstu miðlar heims fjölluðu um leikinn og CNN fékk Hödda Magg í beina útsendingu.





Gleðin á Íslandi virðist síðan hafa staðið langt fram undir morgun því nákvæmlega níu mánuðum síðar var sett met í mænudeyfingum á fæðingardeildinni. Tilviljun?

Gleðin á vellinum sem og á Íslandi er svo fönguð fullkomlega í þessu gæsahúðarmyndbandi sem Stefán Snær Geirmundsson setti saman. Myndband sem er nauðsynlegt að skoða á hverju ári. Gleðilegan Nice-dag.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×