Enski boltinn

United staðfesti komu Wan-Bissaka

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Aaron Wan-Bissaka er orðinn leikmaður Manchester United
Aaron Wan-Bissaka er orðinn leikmaður Manchester United mynd/manchester United
Manchester United tilkynnti nú rétt í þessu að Aaron Wan-Bissaka er formlega orðinn leikmaður félagsins.

Enskir fjölmiðlar sögðu frá því í gærkvöldi að búið væri að ganga frá öllu í tengslum við félagsskiptin og Wan-Bissaka væri orðinn leikmaður United, en félagið átti þó eftir að tilkynna félagsskiptin.







Samningur Wan-Bissaka er til fimm ára með möguleika á eins árs framlengingu en hann kemur til United frá Crystal Palace. United er sagt borga 50 milljónir punda fyrir 21 árs bakvörðinn, 45 milljónir í fyrstu greiðslu og rest í mögulegum bónusgreiðslum, sem gerir hann að fimmta dýrasta leikmanni félagsins. Hann er sjálfur sagður fá um 80 þúsund pund í vikulaun.

Wan-Bissaka er annar leikmaðurinn sem kemur til Manchester United í sumar, United er einnig búið að fá Daniel James frá Swansea fyrir 15 milljónir punda.

Wan-Bissaka er uppalinn hjá Crystal Palace en hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðallið félagsins í febrúar 2018. 

„Það er ótrúleg tilfinning og mikill heiður að segjast vera leikmaður Manchester United,“ sagði Wan-Bissaka á heimasíðu United.

Ole Gunnar Solskjær segir bakvörðinn vera einn af bestu ungu varnarmönnunum í úrvalsdeildinni og að „hann er einmitt sú týpa af leikmanni sem við viljum fá inn í leikmannahópinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×