Enski boltinn

Manchesterliðin tilbúin í baráttu um Maguire

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Verða Maguire og Sergio Aguero liðsfélagar á næsta tímabili
Verða Maguire og Sergio Aguero liðsfélagar á næsta tímabili vísir/getty
Nágrannaliðin í Manchesterborg eru við það að hefja baráttu um varnarmanninn Harry Maguire hjá Leicester City.

Samkvæmt frétt Sky Sports eru City og United tilbúin í að setja allt á fullt í að næla í enska varnarmanninn nú þegar þátttöku Englands í Þjóðadeildinni er lokið.

Leicester vill ekki selja hinn 26 ára Maguire og því er enginn formlegur verðmiði á honum. Sky hefur það eftir heimildarmanni sínum að Leicester meti Maguire á um 80 milljón punda.

Virgil van Dijk varð dýrasti varnarmaður heims þegar Liverpool keypti hann á síðasta ári fyrir 75 milljónir punda.

Stórveldin í Manchester eru treg til þess að punga upp svo stórri fjárhæð en þó mun salan á Maguire, verði af henni, að öllum líkindum slá metið yfir dýrasta enska varnarmanninn sem Manchester City setti þegar Kyle Walker var fenginn til félagsins fyrir 50 milljónir punda 2017.

Þrátt fyrir að vilja ekki selja Maguire er Leicester búið að setja saman lista yfir menn sem geta fyllt skarð hans. Þar á meðal er James Tarkowski, liðsfélagi Jóhanns Berg Guðmundssonar hjá Burnley.

Sjálfur er Maguire sagður nokkuð rólegur yfir þessu öllu, hann sé þakklátur fyrir traustið sem Leicester sýndi honum og sé sáttur með að spila annað tímabil fyrir Refina.


Tengdar fréttir

Velur City fram yfir United

Enski landsliðsmiðvörðurinn er væntanlega á leið burt frá Leicester í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×