Erlent

Trump danglaði blaði með meintum leyniákvæðum framan í fréttamenn

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump forseti veifaði blaði sem átti að vera til sönnunar þess að fleiri ákvæði séu í samningi hans við Mexíkó en greint hefur verið frá opinberlega.
Trump forseti veifaði blaði sem átti að vera til sönnunar þess að fleiri ákvæði séu í samningi hans við Mexíkó en greint hefur verið frá opinberlega. AP/Evan Vucci

Donald Trump Bandaríkjaforseti fullyrðir enn að leynileg ákvæði sé að finna í samkomulagi um innflytjendamál við mexíkósk stjórnvöld þrátt fyrir að þau hafi neitað því. Forsetinn sagði blað sem hann veifaði fyrir framan fréttamenn við Hvíta húsið lýsa þeim ákvæðum í dag.

Tilkynnt var um samkomulag í innflytjendamálum á milli Bandaríkjanna og Mexíkó um hvítasunnuhelgina. Trump dró þá til baka hótun sína um að leggja refsitolla á mexíkóskar vörur ef mexíkósk stjórnvöld gerðu ekki meira til að stöðva straum fólks í gegnum landið til Bandaríkjanna. Tollarnir áttu að taka gildi í dag.

Bandarískir fjölmiðlar sögðu þó fljótt frá því að fátt nýtt væri að finna í samkomulaginu. Aðgerðirnar sem mexíkóska ríkisstjórnin lofaði að ráðast í hefði hún fyrst heitið fyrir nokkrum mánuðum.

Trump tók þá upp á því að fullyrða að í samkomulaginu væru leynileg ákvæði um frekari aðgerðir til að fækka fólki sem kemur að landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó en einnig um að Mexíkóar ætluðu að kaupa meira af bandarískum landbúnaðarvörum. Hann hefur ekki sagt nánar hvers eðlis þau ákvæði eiga að vera og mexíkósk stjórnvöld hafa neitað tilvist þeirra. AP-fréttastofan segir að svo virðist sem að samkomulag um landbúnaðarviðskipti sé einfaldlega ekki til.

Á lóð Hvíta hússins í dag veifaði Trump svo blaði fyrir framan fréttamenn sem hann sagði sanna mál hans. Forsetinn sýndi þeim þó ekki blaðið eða gaf frekari upplýsingar um hvað á því stæði. Sagði hann aðeins að hann ætlaði að láta Mexíkóum eftir að tilkynna um ákvæðin en að þau tækju gildi að hans ákvörðun, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Ljósmyndarar fjölmiðla náðu myndum af blaðinu og gátu fréttamenn þeirra lesið hluta þess sem á blaðinu stóð. Þar er meðal annars vísað til þess að mexíkósk stjórnvöld fari yfir mögulega lagabreytingar til að koma samkomulaginu í framkvæmd.


Tengdar fréttir

Repúblikanar búa sig undir slag við Trump um tolla

Þingmönnum Repúblikanaflokksins var heitt í hamsi eftir fund með embættismönnum Hvíta hússins í vikunni. Þeir hótuðu því að ógilda neitunarvald forsetans til að koma í veg fyrir að hann legði tolla á mexíkóskar vörur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.