Erlent

Eigandi annars flutningaskipsins segir ólíka sögu af árásinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Stilla úr myndbandi sem Bandaríkjastjórn birti í dag. Það á að sýna áhöfn íransks báts fjarlægja ósprungna sprengju af öðru flutningaskipinu sem ráðist var á í gær.
Stilla úr myndbandi sem Bandaríkjastjórn birti í dag. Það á að sýna áhöfn íransks báts fjarlægja ósprungna sprengju af öðru flutningaskipinu sem ráðist var á í gær. Vísir/EPA

Áhöfn japansks flutningaskips sem ráðist var á í Ómanflóa sá einhvers konar flugskeyti lenta á því, að sögn eiganda þess. Sú frásögn stangast á við fullyrðingar bandarískra stjórnvalda sem birtu í dag myndband sem þau segja sýna áhöfn íransks báts fjarlægja ósprungna sprengju af flutningaskipinu.

Ráðist var á tvö flutningaskip með einhvers konar sprengjum í Ómanflóa í gær. Bandarísk stjórnvöld kenna Írönum um árásirnar og lögðu fram myndbandið í dag. Halda þau því fram að tundurdufl sem fest er á með segli hafi verið notað í árásunum. Írönsk stjórnvöld hafna því alfarið.

Yutaka Katada, forseti Kokuka Sangyo sem á annað flutningaskipið, segir að filippseysk áhöfn skipsins hafi séð einhvers konar flugskeyti stefna á skipið, ekki tundurdufl.

„Þeir segja að eitthvað hafi flogið í áttina að þeim, svo varð sprenging, síðan var gat á skipinu,“ sagði Katada við fréttamenn, að sögn Washington Post. Skipverjarnir hafi séð annað skeyti í kjölfarið.

Katada telur að verksummerkin á skipinu bendi frekar til þess að það hafi orðið fyrir skeyti en að sprengja hafi sprungið á því. Þegar seinni sprengingin varð ákvað skipstjórinn að láta áhöfnina yfirgefa skipið. Áhöfnin hafi séð íransk herskip í grenndinni.

Þörf á óháðri rannsókn á árásunum

Árásirnar hafa aukið enn á spennuna á milli bandarískra og íranskra stjórnvalda sem hefur stigmagnast undanfarnar vikur og mánuði. Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kallaði í dag eftir óháðri rannsókn á árásunum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Það er afar mikilvægt að komast að sannleikanum og það er afar mikilvægt að ábyrgðin komist á hreint. Augljóslega er aðeins hægt að gera það ef það er sjálfstæð eining sem staðreyndir þær staðreyndir,“ sagði Guterres.

Aðeins öryggisráðið gæti skipað fyrir um slíka rannsókna á vegum Sameinuðu þjóðanna.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.