Innlent

Herjólfur loksins afhentur og formlega kominn með nafn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fjölmenni tók á móti Herjólfi í Friðarhöfn í dag.
Fjölmenni tók á móti Herjólfi í Friðarhöfn í dag. Eyjar.net/Tryggvi már
Nýr Herjólfur var afhentur Vestmannaeyingum við hátíðlega athöfn í Friðarhöfn síðdegis í dag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra nefndi formlega nýjan Herjólf og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti ávarp þar sem hann afhenti Vestmannaeyingum hina nýju ferju. 

Í ræðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kom fram að með nýjum Herjólfi standi vonir til að samgöngur verði betri og þjóni þörfum Vestmannaeyinga. Þá eru orkuskipti eitt af áhersluatriðum ríkisstjórnarinnar. Því hefði ekkert annað komið til greina en að ný ferja gengi fyrir umhverfisvænni orku.

Þá fluttu forstjóri Vegagerðarinnar, formaður bæjarráðs og fulltrúi Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ávörp og prestur Landakirkju blessaði skipið. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra óskaði Vestmanneyingum til hamingju með ferjuna í færslu á Twitter-reikningi sínum nú síðdegis.

Skipið kom til Vestmannaeyja í gær frá Póllandi og var siglt umhverfis Heimaey. Stefnt er að því að Herjólfur hefji áætlunarsiglingar innan tveggja vikna, að sögn framkvæmdastjóra rekstrarfélags skipsins.

Upphaflega var gert ráð fyrir að nýr Herjólfur kæmi til Eyja fyrir um ári. Smíði Herjólfs tafðist vegna rafvæðingar skipsins og afhending ferjunnar dróst einnig vegna deilu Vegagerðarinnar og skipasmíðastöðvarinnar í Póllandi um endanlegan kostnað verksins.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra við nýjan Herjólf í dag.Eyjar.net/tryggvi már

Tengdar fréttir

Nýr Herjólfur hefji áætlunarsiglingar innan tveggja vikna

Stefnt er að því að nýr Herjólfur hefji áætlunarsiglingar innan tveggja vikna að sögn framkvæmdastjóra rekstrarfélags skipsins. Eyjamenn og gestir þeirra taka formlega á móti nýjum Herjólfi eftir hádegið í dag.

Herjólfur kominn heim til Eyja

Nýr Herjólfur kom til Vestmannaeyja nú undir kvöld eftir rúmlega fimm sólarhringa siglingu frá pólsku hafnarborginni Gdynia.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.