Ísrael ætlar að byggja Trump-hæðir á Gólanhæðum

Fyrirætluð byggð í Gólanhæðum, svæði sem Ísrael innlimaði frá Sýrlandi í sex daga stríðinu árið 1967, verður nefnd Trump hæðir. Forsætisráðherra Ísrael, Benjamín Netanjahú kynnti þetta á svæðinu í dag. BBC greinir frá.
Trump hlotnaðist heiðurinn vegna þess að hann viðurkenndi yfirráð Ísraels yfir Gólanhæðum, fyrstur þjóðarleiðtoga fyrr á árinu.
Framkvæmdir á svæðinu eru ekki hafnar en Netanjahú afhjúpaði stærðarinnar skilti með nafni byggðarinnar „Trump heights“ ásamt ísraelska og bandaríska fánanum.
Þetta er sögulegur dagur sagði Netanjahú og sagði Trump vera góðan vin Ísraelsríkis. Forsætisráðherrann stóð því við loforð sitt en hann tjáði Trump í apríl að byggðin yrði nefnd í höfuðið á honum vegna afstöðu Bandaríkjanna til yfirráða á Gólanhæðum.
Sendiherra Bandaríkjanna í Ísrael, David Friedman, þakkaði ísraelsstjórn fyrir og sagði forsetann vera þakklátan Ísrael.
Gagnrýnendur segja athöfnina eingöngu hafa verið til sýnis og segja að engu fé hafi verið veitt til framkvæmda á svæðinu og að leyfi hafi heldur ekki fengist.
Tengdar fréttir

Arabaleiðtogar fordæma ákvörðun Trump um Gólanhæðir
Trump Bandaríkjaforseti viðurkenndi yfirráð Ísraela yfir Gólanhæðum sem þeir tóku af Sýrlandi í sex daga stríðinu á dögunum.

Segir guð mögulega hafa sent Trump til að bjarga Ísrael
Trump hefur farið hart fram gegn Íran frá því hann tók við embætti forseta.

Bandaríkin ætla að viðurkenna yfirráð Ísraels yfir Gólanhæðum
Ísraelar lögðu undir sig Gólanhæðir í sex daga stríðinu árið 1967. Önnur ríki hafa ekki viðurkennt yfirráð þeirra yfir landsvæðinu.