Enski boltinn

Beckenbauer þráir ekkert heitar en að fá Klopp til Bayern

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp í fagnaðarlátum Liverpool eftir sigurinn í Meistaradeildinni.
Klopp í fagnaðarlátum Liverpool eftir sigurinn í Meistaradeildinni. vísir/getty
Þýska goðsögnin Franz Beckenbauer heldur áfram að lýsa yfir áhuga sínum að fá Jurgen Klopp, stjóra Liverpool, til Bayern Munchen einn daginn.

Beckenbauer er goðsögn hjá Bayern en hann vill sjá Þjóðverjann snúa aftur til heimalandsins og taka við Bayern. Klopp er þó með samning hjá Liverpoool til 2022 og líkur eru á að hann framlengi þann samning.

„Ég þrái ekkert heitar en að sjá Klopp koma til Bayern einn daginn. Það myndi henta vel,“ sagði Beckenbauer í samtali við þýska dagblaðið Bild.

„Klopp kom með nýjan stíl af fótbolta til Þýskalands. Hann byrjaði með hann hjá Dortmund og hefur haldið sínu striki hjá Liverpool.“

Þýska goðsögnin setur spurningarmerki við það af hverju Klopp ætti að dvelja svo lengi á Englandi og segir að það krefjist mikillar orku að starfa þar.

„Störf á Englandi ræna þig allri orku. Sem stjóri í ensku úrvalsdeildinni hefur þú meiri ábyrgð en þjálfari í Þýskalandi. Þar eru tvær bikarkeppnir og fleiri leikir í deildinni.“

Klopp segir í samtali við sama blað að honum líki vel við Beckenbauer en hann sé ekki á leið burt frá Englandi.

„Mér líkar vel við Beckenbauer og honum líkar vel við mig en ég er með langtímasamning við Liverpool. Stöðurnar hjá Bayern og Dortmund eru góðar en hvað gerist eftir fimm ár eða meira veit ég ekki,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×