Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - FH 4-1 | Breiðablik skellti FH

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/daníel þór
Breiðablik fer inn í landsleikjahléið á toppi Pepsi Max deildar karla eftir öflugan 4-1 sigur á FH á Kópavogsvelli í kvöld.

Fyrri hálfleikur var frekar jafn. Grænklæddir heimamenn voru svolítið seinir í gang sóknarlega en heilt yfir var ekki mikið um dauðafæri í fyrri hálfeik. Bæði lið áttu sínar sóknartilraunir en staðan var markalaus þegar gengið var til búningsherbergja.

Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og eftir um tíu mínútna leik var Andri Rafn Yeoman búinn að koma heimamönnum yfir. Heimamenn tvíefldust við markið og á næstu tuttugu mínútum bættu þeir þremur mörkum við.

FH náði í sárabótamark undir lok leiks þegar Brynjar Ásgeir Guðmundsson fylgdi vel á eftir skoti Steven Lennon en FH átti ekki möguleika gegn ógnarsterkum Blikum í seinni hálfeik.

Leiknum lauk með 4-1 verðskulduðum Blikasigri og Breiðablik fer upp fyrir ÍA á topp Pepsi Max deildarinnar á markatölu.

Af hverju vann Breiðablik?

Grænir settu í annan gír í seinni hálfleik. Þeir höfðu átt ágæt færi í þeim fyrri, sem og FH, en varnir beggja liða skiluðu fyrri hálfleiknum vel af sér. Í seinni hálfleik fundu Blikar hins vegar meiri kraft á meðan FH-liðið datt niður. Eftir fyrstu tvö mörkin, sem komu á fimm mínútna kafla snemma í seinni hálfleik, datt allur dampur úr FH og þeir voru aldrei líklegir til þess að koma til baka.

Hverjir stóðu upp úr?

Aron Bjarnason átti frábæran dag úti á vinstri kantinum. Hann var síógnandi og skilaði tveimur góðum mörkum og var auðvalinn maður leiksins. Andri Rafn Yeoman var mjög góður á hinum kantinum og þá var varnarlína Breiðabliks mjög góð í dag, sérstaklega Damir Muminovic.

Hjá FH var vörnin mjög sterk í fyrri hálfleik og Jákup Thomsen kom sér í nokkur ágæt færi en í seinni hálfleik var lítið sem stóð upp úr á jákvæðan hátt í liði FH.

Hvað gerist næst?

Nú fer deildin í smá frí eftir góða keyrslu síðustu vikur. Það eru gríðarlega mikilvægir landsleikir fram undan sem landsliðsmennirnir í deildinni þurfa að taka þátt í. Deildin fer svo aftur í gang föstudaginn 14. júní. Þá sækja Blikar Fylkismenn heim í Árbæinn og FH fær Stjörnuna í heimsókn í Kaplakrika.

Gústi Gylfa: Þegar formið og takturinn er í lagi erum við góðir

„Við komum gríðarlega öflugir í seinni hálfeik. Fyrri hálfleikur var mikil virðing beggja liða, lítið af færum og bæði lið að halda boltanum og ekki mikill kraftur í þessu. Í seinni hálfleik ákváðum við að snúa taflinu við,“ sagði Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Breiðabliks.

„Setjum á þá fjögur frábær mörk á þá, fáum eitt á okkur í lokin sem er fúlt en ég er ótrúlega ánægður með þennan sigur.“

Hvað gerðu Blikar best í dag? „Við vorum aggresívir í seinni hálfleik. Lögðum upp með að byrja þannig en náðum því ekki alveg í fyrri. Í seinni hálfleik náðum við góðri pressu og náðum að þvinga þá mjög neðarlega. Uppskárum eftir því, pressum og skorum frábær mörk.“

„Þegar formið og takturinn er í lagi þá erum við góðir.“

Óli Kristjáns: Ekki frammistaða okkur til sóma

„Það er voðalega erfitt að segja svona strax eftir leik en þeir pökkuðu okkur saman í seinni hálfleik,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, spurður út í hvað hefði farið úrskeiðis í leik FH í kvöld.

„Þeir unnu okkur í návígum, við spiluðum aftur á bak og passívt. Gerðum ekki það sem við töluðum um að fara aftur fyrir þá eins og við vorum að reyna að gera í fyrri hálfeik. Við kólnuðum bara niður í síðari hálfleik og verðskuldaður sigur Blikanna.“

„Fyrri hálfleikurinn var nokkurn veginn í jafnvægi en mér fannst við aðeins með yfirhöndina. Við komum algjörlega loftlausir út í seinni hálfleik og þetta var ekki frammistaða okkur til sóma.“

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, var tekinn af velli í hálfleik og Ólafur sagði það hafa verið vegna meiðsla.

„Hann er búinn að vera að brasa með hnéð á sér og var ekki góður eftir fyrstu 45 og bað um skiptingu. Það eru brjóskskemmdir í hnénu á honum og búið að vera mikið álag á honum.“

Aron: Ákváðum fyrir leikinn að leggja allt í sölurnar

„Mér fannst við skila þessu. Við fórum inn í hálfleik, ákváðum að vera aðeins beinskeyttari í seinni hálfleik og það skilaði sér strax,“ sagði maður leiksins Aron Bjarnason.

„Mér fannst við keyra vel á þá í seinni hálfleik, fyrri hálfleikur var frekar jafn fram og til baka. Við sköpuðum ekki mikið í fyrri hálfleik en gerðum það í seinni og nýttum færin.“

Fengu Blikar að vita það í hálfeik að ÍA hefði tapað sínum leik og sigur með góðri markatölu hefði sett þá á toppinn?

„Nei, ég hafði ekki hugmynd um það.“

„Við ákváðum það bara fyrir leikinn að leggja allt í sölurnar. Það er tveggja vikna frí fram undan og það er gott að fara með þennan sigur inn í fríið.“

Gummi Kristjáns: Heilt yfir slakur leikur af okkar hálfu

„Það var margt sem fór úrskeiðs. Við gáfum hellings pláss til þess að hlaupa í fyrir aftan okkur og vorum svolítið að spila þetta upp í hendurnar á þeim,“ sagði Guðmundur Kristjánsson eftir leikinn.

„Vorum aðeins á móti vindi í byrjun seinni hálfleiks og erum svolítið að negla í þá, fáum bylgju á eftir bylgju á okkur og svo einhvern veginn náum við okkur ekki almennilega á strik eftir það.“

Hvað var það helst sem vantaði upp á? „Það vantaði að leysa betur úr pressunni, við náðum ekki upp spilinu okkar og náðum ekki að fara nógu vel aftur fyrir þá. Heilt yfir frekar slakur leikur af okkar hálfu í seinni hálfleiknum og okkur er refsað fyrir það af góðu Blikaliði.“

„Þetta er bara slakur leikur og við horfum ekkert á þennan leik til þess að finna jákvæða punkta. Þurfum að vinna í okkar málum og þurfum að nýta fríið vel.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.