Enski boltinn

Frá Eyjum í mark meistaranna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Andrea Gunnlaugsdóttir yfirgefur Eyjuna.
Andrea Gunnlaugsdóttir yfirgefur Eyjuna. vísir/bára

Valskonur eru búnar að fylla í skarðið sem að þýski markvörðurinn Chantel Pagel skildi eftir sig á dögunum en hin bráðefnilega Andrea Gunnlaugsdóttir er gengin í raðir meistaranna í Olís-deild kvenna.

Andrea er kornung, fædd 2002, og hefur verið í yngri landsliðum Íslands en hún var Guðnýju Jenny Ásmundsdóttur til halds og trausts í marki ÍBV á síðustu leiktíð.

Þegar að Jenny sleit krossband í landsliðsferð í mars þurfti Andrea að vakta rammann í úrslitakeppninni þar sem að ÍBV tapaði, 3-0, fyrir Fram í undanúrslitunum.

Andrea skrifaði undir tveggja ára samning við Val og heldur því áfram að læra af þeim bestu en hún verður nú á eftir Írisi Björk Símonardóttur í marki Valskvenna.

Íris var langbesti markvörður síðustu leiktíðar er Valur vann deild, bikar og Íslandsmeistaratitilinn en Jenny var næst best á eftir Írisi. Andrea heldur því áfram í góðum skóla.

Auk Chantel Pagel er Alina Molkova farin frá Val og þá er Gerður Arinbjarnar hætt en Andrea er annar leikmaðurinn sem að kemur frá ÍBV því Valskonur sömdu við landsliðslínumanninn Örnu Sif Pálsdóttur á dögunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.