Innlent

Losun frá stóriðju og flugi jókst í fyrra

Kjartan Kjartansson skrifar
Icelandair og Wow air fengu flestar losunarheimildir í fyrra. Wow air gerði ekki upp heimildir sínar vegna gjaldþrots félagsins í lok mars.
Icelandair og Wow air fengu flestar losunarheimildir í fyrra. Wow air gerði ekki upp heimildir sínar vegna gjaldþrots félagsins í lok mars. Vísir/Vilhelm
Stóriðja og flugrekendur á Íslandi juku losun sína á gróðurhúsalofttegundum í fyrra. Losunin sem heyrir undir sameiginlegt viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir jókst alls um 1,1% á milli 2017 og 2018. Fyrirtæki á Íslandi þurftu að kaupa losunarheimildir fyrir tæplega milljón tonn af koltvísýringi til að mæta losun sinni í fyrra.

Fimm flugrekendur á Íslandi losuðu 820.369 tonn af koltvísýringi í fyrra og var það 0,8% aukning frá árinu á undan. Sú tala nær þó aðeins til þeirrar losunar sem þeir stóðu fyrir innan evrópska efnahagssvæðisins (EES) og fangar því ekki heildarlosun fyrirtækjanna sem fljúga sum hver til Norður-Ameríku, að því er segir í tilkynningu Umhverfisstofnunar.

Sjö iðnaðarfyrirtæki falla undir viðskiptakerfi ESB en losun þeirra nam 1.854.715 tonnum af koltvísýringi í fyrra og jókst hún um 1,26% á árinu áður.

Með viðskiptakerfinu fá rekstraraðilar úthlutað tilteknum fjölda losunarheimilda endurgjaldslaust á hverju ári. Fyrirtæki á Íslandi sem falla undir kerfið fengu alls úthlutað 1.693.804 losunarheimildum upp á eitt tonn af koltvísýringi hver. Af þeim fengu flugrekendur 360.815 en aðrir rekstraraðilar 1.332.989.

Losun frá flugi var þannig ríflega tvöfalt meiri en úthlutaðar heimildir. Flugrekendur á Íslandi þurftu því að kaupa 459.554 losunarheimildir í fyrra. Rekstraraðilar í iðnaði losuðu um 40% meira en endurgjaldslausar heimildir þeirra dugðu fyrir. Þeir keyptu því 521.726 heimildir. Alls var losun fyrirtækja á Íslandi um 58% meiri en endurgjaldslausar losunarheimildir ársins. Samtals keyptu þau 981.280 heimildir í fyrra.

Viðskiptakerfið nær utan um 45% af losun gróðurhúsalofttegunda innan Evrópusambandsins. Markmið þess er að árið 2020 verði losun í þeim geirum sem heyra undir það 21% minni en hún var árið 2005. Árið 2030 á hún að vera orðin 43% lægri. Því á að ná fram með að fækka endurgjaldslausum losunarheimildum á hverju ári.

Umhverfisstofnun

Tengdar fréttir

Ráðgera mikinn samdrátt í losun

Áætlaður samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda frá orkugeiranum á Íslandi nemur 23 prósentum til ársins 2030 miðað við árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×