Innlent

Segir aukna losun skýrast af því að Ís­land greip ekki fyrr til mark­vissra að­gerða í lofts­lags­málum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, segir það alvarlegt að losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum hafi aukist hér á landi á milli áranna 2016 og 2017.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, segir það alvarlegt að losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum hafi aukist hér á landi á milli áranna 2016 og 2017. vísir/vilhelm
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, segir það vonbrigði og alvarlegt að losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum hafi aukist um 2,2 prósent á milli áranna 2016 og 2017.

Hann telur skýringuna vera þá að Ísland hafi ekki gripið til nægilegra markvissra aðgerða gegn losuninni fyrr. Með aðgerðaáætlun núverandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum megi búast við því að losun í vegasamgöngum mun halda áfram að aukast sé litið til síðasta árs og ársins í ár.

„Það sem ég held að við megum alveg búast við er að útlosun í vegasamgöngum haldi áfram að aukast 2018 og jafnvel 2019 og kannski í einhverjum öðrum geirum líka. Það sem þetta kannski sýnir okkur í stóru myndinni er að það eru nokkrir þættir sem eru að aukast og það er sérstaklega útblástur frá vegasamgöngum og þessi efni í kælimiðlum, hin svokölluðu F-gös. Síðan er losun náttúrulega að aukast frá stóriðju, og hefur aukist mikið frá 1990, sérstaklega frá álverunum,“ segir Guðmundur í samtali við Vísi.

Ráðherra segir að innviðirnir þurfi að vera í lagi til að orkusamskipti í samgöngum geti gengið eftir. Það þurfi til að mynda að vera rafhleðslustöðvar um land allt.vísir/vilhelm

Orkuskipti í vegasamgöngum gríðarlega mikilvægur þáttur

Nær 40 prósent af losun Íslands, einkum frá stóriðju, fellur undir evrópskt viðskiptakerfi (ETS). Af þeirri losun sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda er stærsti einstaki þátturinn á hinn bóginn frá vegasamgöngum, eða alls 34 prósent.

Umhverfisráðherra segir að þegar horft sé á losunartölur bæði yfir lengri og skemmri tíma þá sé alveg ljóst að aðgerðir sem varða orkuskipti í vegasamgöngum séu gríðarlega mikilvægur þáttur. Inn í það fléttast svo bættar almenningssamgöngur og breyttar ferðavenjur almennings almennt.

„Þessi áhersla sem snýr að orkuskiptunum hún er ekki bara það sem við þurfum að gera alþjóðlega heldur líka hérna heima og það sýna þessar tölur okkur svo ekki verði um villst,“ segir Guðmundur.

Losun frá fólksbílum jókst um 10 prósent á milli áranna 2016 og 2017 og hefur Umhverfisstofnun bent á mikla fjölgun ferðamanna í því samhengi sem keyra um landið.

Ráðherra segir að umhverfisáhrifa gæti frá allri starfsemi og verkefnið sé að draga eins mikið úr þeim og mögulegt er.

„Það eru alltaf umhverfisáhrif frá allri starfsemi og verkefnið er að draga eins mikið úr þeim og mögulega er hægt. Það eru gríðarleg sóknarfæri fyrir ferðaþjónustuna að taka þátt í þessu einfaldlega með því að markaðssetja sig með þeim hætti. Þegar þú kæmir  til Íslands þá myndirðu leigja bíl sem væri  knúinn áfram af loftslagsvænna eldsneyti en þú finnur víðast hvar annars staðar þannig að þú getur farið að tala um umhverfisvænni ferðamennsku á sama tíma og þú ert að heimsækja fallega og einstaka náttúru og upplifa í raun hana án þess að umhverfissporið þitt sé eins stórt. En auðvitað þarf að huga að millilandafluginu í þessu samhengi líka,“ segir Guðmundur.

Tölur um aukna losun sýna að hún er að mestu tilkomin vegna fjölgunar ferðamanna, sem fjölgar bílunum á vegum landsins, og aukinnar neyslu.vísir/vilhelm

Vilja auðvelda bílaleigum að taka þátt í rafbílavæðingunni

Hann bendir á að í gildi séu ívilnanir fyrir innflutning á rafbílum og fleiri bílum sem eru umhverfisvænni heldur en dísel- og bensínbílar þannig að þeir séu samkeppnishæfir í verði. Það vanti hins vegar að bílaleigurnar taki þátt í rafbílavæðingunni og stjórnvöld vinni nú að því að auðvelda þeim það.

„Hlutfallslega, miðað við önnur lönd, þá er mjög stór hluti af þeim bifreiðum sem eru keyptar af bílaleigum sem fara í endursölu hér á landi, það er svo stór hluti endursölumarkaðarins. Þess vegna er svo mikilvægt að einbeita sér að þessum þætti og það er eitthvað sem við erum að vinna í nú og komum væntanlega fram með einhverjar tillögur nú í vor,“ segir Guðmundur.

Þá leggur hann jafnframt áherslu á að hafa innviðina í lagi svo hægt sé að fara í orkuskipti bílaflotans. Þar skipti miklu máli að hafa rafhleðslustöðvar um allt land og ekki síður á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem flestir ferðamenn fara um.

„Þarna sé ég fyrir mér að á næstu árum munum við geta náð árangri en þetta mun ekki tikka inn 2018 og ekki 2019 nema að litlu leyti. Þess vegna er maður að horfa til þess að vonandi náum við einhverjum toppi á þessu ári þegar það kemur að vegasamgöngum. Þetta eru þau atriði sem við erum að vinna með núna, þannig að þegar maður horfir á tölurnar og breytingarnar í tölunum þá erum við einmitt að einbeita okkur að þessum þáttum þar sem við erum að sjá alvarlegustu tilhneiginguna til aukinnar losunar,“ segir Guðmundur.

Kerfið í dag er í raun línulegt kerfi þar sem við framleiðum, notum, og losum okkur við efni eða vörur án þess að huga nægilega að því hvernig megi lengja endingatíma og nýta betur aðföng og það sem afgangs verður, sem við losum okkar við, í frekari framleiðslu, segir umhverfisráðherra. Nauðsynlegt sé að hverfa frá línulegu kerfi yfir í hringlaga kerfi.vísir/vilhelm

Þurfum hvert og eitt að hugsa út í það hvernig við neytum og notum

Annað atriði sem Umhverfisstofnun bendir á vegna aukinnar losunar er aukin neysla almennings. Umhverfisráðherra segir líka gríðarleg sóknarfæri á því sviði og er verið að móta verkefni í ráðuneytinu varðandi það hvernig taka má bæði á neyslu og úrgangi.

„Þessi mál kalla eiginlega á bæði viðhorfsbreytingu en líka að við þurfum að bylta því kerfi sem við höfum byggt upp á undanförnum áratugum en ömmur okkar og afar lifðu ekki við slíkt kerfi. Kerfið í dag er í raun línulegt kerfi þar sem við framleiðum, notum, og losum okkur við efni eða vörur án þess að huga nægilega að því hvernig megi lengja endingatíma og nýta betur aðföng og það sem afgangs verður, sem við losum okkar við, í frekari framleiðslu. Þannig þurfum við að búa til hringrásarkerfi. Við þurfum að pæla betur í því hvaða aðföng við setjum inn í framleiðsluna og hve mikil. Hvernig getum við framleitt vörur, hvort sem það er matur, föt, farsímar og tölvur eða byggingarefni sem endist lengur og hvernig getum við nýtt úrganginn sem efnivið í nýja framleiðsluferla,“ segir Guðmundur og heldur áfram:

„Við þurfum hvert og eitt að hugsa út í það hvernig við neytum og notum og hið opinbera getur hjálpað til, til dæmis með því að krefjast þess að það séu merkingar á vörum.“

Þá segir ráðherra mikilvægt að huga að úrganginum. Gríðarlega mikilvægt sé að draga úr myndun úrgangs og svo er lykilatriði að beina lífrænum úrgangi meira í moltugerð sem nota má við áburð og uppgræðslu á landi sem og í garðrækt.

„Hvernig getum við nýtt úrganginn sem verðmæti fyrir annars konar starfsemi? Búið til eitthvað úr því? Endurunnið meira en við gerum í dag og gert við hluti?“ spyr Guðmundur.

Ráðherrar sjást hér á kynningarfundi síðastliðið haust þar sem aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum var kynnt.vísir/vilhelm

Frá línulegu kerfi í hringlaga

Hann segir að hverfa þurfi frá línulega kerfinu og gera það hringlaga.

 

„Þetta hefur verið kallað hringrásarhagkerfið og við erum að vinna í því að skipuleggja hvernig við getum innleitt það hér á landi. Þar erum við að horfa á alla virðiskeðjuna frá framleiðslu til úrgangsmyndunar, en munum sérstaklega horfa á þætti eins og matarsóun og plastmengun,“ segir Guðmundur.

Íslensk stjórnvöld skuldbundu sig til þess að taka þátt í að draga úr losun Evrópusambandslanda um 20% árið 2020 miðað við árið 1990 með Kýótóbókuninni. Til þess fékk Ísland úthlutað losunarheimildum fyrir um 15 milljónum tonna koltvísýringsígilda.

Tölurnar sem kynntar voru fyrr í mánuðinum benda til þess að Ísland muni þurfa að kaupa viðbótarheimildir fyrir á fjórðu milljón tonn samkvæmt Umhverfisstofnun.

Umhverfisráðherra segir ástandið vera svona þar sem ráðast hefði þurft í frekari aðgerðir í loftslagsmálum mun fyrr eða fyrir að minnsta kosti fimm árum síðan.

„Það kom áætlun árið 2010 en þá skorti fjármagn. Það kom ekki inn neitt sérstakt fjármagn í loftslagsmálum fyrr en með áætlun 2016 til 2018 en það var þá frekar lítið fjármagn. Það var þó nóg til þess að setja rafhleðslustöðvar víða um land en núna þegar við leggjum fram okkar áætlun í fyrrahaust þá er í fyrsta sinn komið umtalsvert fjármagn í þennan málaflokk,“ segir Guðmundur.


Tengdar fréttir

Norðurlönd taka höndum saman gegn plastmengun í hafinu

Umhverfisráðherrar Norðurlandanna hafa tekið höndum saman um alþjóðlegar aðgerðir gegn plastmengun í hafinu og telja að Norðurlöndin geti haft forystu í þeirri baráttu. Ungt fólk á Norðurlöndum sem þingaði í Reykjavík í dag hefur áhyggjur af afleiðingum loftslagsbreytinga.

Guðni forseti: „Ég er ekki í hópi ofurplokkara“

Forseti Íslands er ekki í hópi ofurplokkara en segist gjarnan með sér poka fyrir rusl þegar hann fer út að skokka. Nokkur hundruð tóku þátt í skipulögðu plokki á höfuðborgarsvæðinu og enn fleiri um land allt á stóra plokkdeginum 2019 sem fór fram í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×