Innlent

Ráðgera mikinn samdrátt í losun

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Bílaumferð á Reykjanesbraut.
Bílaumferð á Reykjanesbraut. Fréttablaðið/Anton brink
Áætlaður samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda frá orkugeiranum á Íslandi nemur 23 prósentum til ársins 2030 miðað við árið 2005. Á sama tímabili er gert ráð fyrir að losun frá iðnaði aukist um 17 prósent og losun frá landbúnaði aukist um 5 prósent. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Umhverfisstofnunar um áætlaðan samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að losun frá úrgangi dragist saman um 28 prósent.

Framreikningar sýna að það muni nást 19 prósenta samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030 miðað við árið 2005 og 28 prósenta samdráttur muni nást til ársins 2035 miðað við árið 2005.

Fram kemur að einungis hafi verið hægt að meta áætlaðan ávinning af aðgerðum í gildandi aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum að takmörkuðu leyti og ekki var tekið tillit til ýmissa annarra aðgerða í samfélaginu vegna skorts á tölulegum gögnum. Þannig má gera ráð fyrir að samdráttur í losun verði enn meiri en gert er ráð fyrir í skýrslunni.

Þær aðgerðir sem gert er ráð fyrir að skili mestum árangri snúa að rafbílavæðingu, en þar studdist Umhverfisstofnun við spá Orkuveitu Reykjavíkur um rafbílavæðingu frá árinu 2018.

„Ljóst er að skýrsla um framreiknaða losun er gagnlegt tæki til að meta árangur af stefnum og aðgerðum, því með því að styðjast við hana er hægt að leggja betra mat á til hvaða aðgerða er best að grípa, hve hratt breytingar þurfa að eiga sér stað og jafnframt hvaða aðgerðir skili árangri,“ segir í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×