Innlent

Heimildarmynd um Hatara í óleyfi á YouTube

Jakob Bjarnar skrifar
Skarphéðinn hefur farið þess á leit við YouTube að heimildamynd um Hatara verði fjarlægð af efnisveitunni. Hann segir þetta hvimleiðan eltingarleik við höfundarréttarbrotin sem eru alltof algeng.
Skarphéðinn hefur farið þess á leit við YouTube að heimildamynd um Hatara verði fjarlægð af efnisveitunni. Hann segir þetta hvimleiðan eltingarleik við höfundarréttarbrotin sem eru alltof algeng.

Heimildarmynd um Hatara, sem Vísir sagði af nú í morgun, var birt á YouTube í óleyfi og hefur verið þar í um viku tíma. Þar er um skýrt höfundarréttarbrot að ræða en Ríkissjónvarpið á sýningarréttinn.

„Rétt. Þetta er höfundarvarið efni. RÚV er rétthafinn. Keypti sýningarréttinn og er að auki meðframleiðandi með Tattarrattat, sem er framleiðslufyrirtæki Önnu Hildar Hildibrandsdóttur. Hún framleiddi myndina og hefur farið fram á það við Youtube að myndin verði fjarlægð. Hún er aðgengileg í spilara RÚV,“ segir Skarphéðinn í samtali við Vísi.

Hann segir óhætt að segja þetta algengt vandamál, að brotið sé á RÚV með þessum hætti.

„Já, það er óhætt að segja það. Kemur reglulega upp en blessunarlega þá er Youtube farið að bregðast nokkuð hratt og örugglega við því þegar gerðar eru athugasemdir og fjarlægir þá vanalega efnið um hæl.“

Þetta er hvimleiður eltingaleikur að sögn Skarphéðins, sem kemur þó vitaskuld verr niður á áskriftarstöðvum sem reiða sig á að þeir einu sem geti nálgast efnið séu þeir sem hafi greitt fyrir það. Dagskrárstjórinn segir að vandinn sé til staðar en vandséð hvernig er hægt að bregðast við.

„FRÍSK gætir réttar rétthafa kvikmynda- og sjónvarpsefnis og hefur fylgt svona málum og sambærilegum eftir af festu. Vandinn er auðvitað stærri þegar kemur að niðurhali á deilisíðum því Youtube bregst við og fjarlægir efni sem er höfundarréttarvarið.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.