Íslenski boltinn

Reimaði á sig markaskóna eftir ferð til Egyptalands

Benedikt Bóas skrifar
Lilja Dögg Valþórsdóttir.
Lilja Dögg Valþórsdóttir. Fréttablaðið/sigtryggur ari
„Ég bað um skiptingu þegar skammt var eftir. Þá var líkaminn orðinn svolítið þreyttur – trúlega eftir flugin þrjú á sunnudaginn,“ segir Lilja Dögg Valþórsdóttir en hún skoraði fyrra mark KR í Pepsi Max deild kvenna í 2-1 sigri liðsins á ÍBV.

Lilja var í ævintýraferð með systur sinni í Egyptalandi og lenti á sunnudeginum á Klakanum. Náði einni æfingu og reimaði á sig markaskóna á þriðjudegi í fyrsta sigri KR í deildinni.

„Egyptaland er ótrúlega merkilegt land og við vorum að skoða og fræðast um allar þessar fornminjar sem eru þarna. Það er ótrúlegt að standa við hlið eða inni í píramídunum og sjá alla þessa sögu. Maður verður einhvern veginn svo agnarsmár á þessum stað,“ segir hún.

Lilja er elsti leikmaður deildarinnar, fædd árið 1982, og er því 37 ára gömul. Hún hefur spilað 240 leiki á sínum ferli og skorað 13 mörk en líkt og tölfræðin sýnir þá spilar hún í vörninni.

„Það er ennþá ótrúlega gaman að vakna og bíða eftir að komast á æfingu. Líkaminn er í fínu standi og ég hef verið heppin með meiðsli á undirbúningstímabilinu. Ég gat því æft af fullum krafti í vetur og komið vel undirbúin inn í Íslandsmótið.

Á meðan líkaminn leyfir og mér finnst þetta ennþá jafn gaman þá er ég ekkert að fara að hætta. En ég mæli ekkert endilega með ferðalagi til Egyptalands svona á miðju tímabili en þetta var einfaldlega þannig ferð að ég gat ekki sleppt henni.Systir mín náði að plata mig með og ég sé alls ekki eftir því.

Næst er það Breiðablik í deildinni og það var lífsnauðsynlegt að fá okkar fyrstu stig með þessum sigri á ÍBV. Við stefnum á að byggja ofan á hann,“ segir Lilja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×