Enski boltinn

Þrjú ensk félög á eftir James Rodriguez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Rodriguez fagnar meistaratitlinum með Bayern.
James Rodriguez fagnar meistaratitlinum með Bayern. Vísir/Getty
James Rodriguez gæti verið á leiðinni í ensku úrvalsdeildina á næstu leiktíð ef marka má fréttir í enskum fjölmiðlum í morgun.

James Rodriguez hefur verið í láni hjá Bayern München frá Real Madrid í tvö ár eftir að Zinedine Zidane vildi ekkert með hann hafa á Santiago Bernabeu.





Lánssamningi James Rodriguez er nú lokið en hann er enn með samning við Real Madrid til ársins 2021.

Það er ekki búist við því að kólumbíski landsliðsmaðurinn verði áfram hjá Bayern og Zinedine Zidane er aftur tekinn við liði Real Madrid þannig að ekki á James Rodriguez mikla framtíð þar.

Daily Mirror slær því upp að ensku úrvalsdeildarfélögin Liverpool, Manchester United og Arsenal hafi öll áhuga á því að fá James Rodriguez til sín í sumar. 





James er enn bara 27 ára gamall og ætti því að eiga eftir mörg frábær ár í boltanum. Hann hefur spilað í Portúgal, á Spáni og á Ítalíu og gæti verið spenntur að fá að reyna fyrir sér í ensku úrvalsdeildinni.

James Rodriguez var með 7 mörk og 4 stoðsendingar í 20 deildarleikjum með Bayern München á nýlokinn leiktíð en hann byrjaði aðeins þrettán leiki. Besti leikur hans var í 6-0 sigri á Mainz í mars þar sem hann var með þrennu. Það voru síðustu mörk hans á leiktíðini og hann endaði tímabilið meiddur á kálfa.

Á tímabilinu á undan var James með 7 mörk og 11 stoðsendingar í 23 deildarleikjum.

James hefur orðið meistari þrjú ár í röð (Real Madrid 2017, Bayern 2018 og 2019) og alls sex sinnum á síðustu níu árum (2011, 2012 og 2013 með Porto).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×