Enski boltinn

Stjórnarformaður Man City: Sumir keppinautar okkar eru bara öfundsjúkir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Manchester City fagna hér Englandsmeistaratitli sínum á dögunum.
Leikmenn Manchester City fagna hér Englandsmeistaratitli sínum á dögunum. Getty/Michael Regan
Khaldoon Al Mubarak, stjórnarformaður Englandsmeistara Manchester City, er allt annað en sáttur með umræðuna sem er í gangi um hvað það hefur kostað Manchester City að setja saman sitt frábæra fótboltalið.

Manchester City hefur slegið mörg met á síðustu tveimur tímabilum og er illviðráðanlegt undir stjórn Pep Guardiola.

Í fyrra var City fyrsta liðið til að fá hundrað stig í ensku úrvalsdeildinni og í ár var liðið það fyrsta sem vinnur heima-þrennuna það er vinnur alla þrjá bikarana í boði á Englandi.

Manchester City á ekki leikmann meðal þeirra tíu dýrustu hjá ensku liðunum en þar á Manchester United tvo (Paul Pogba og Romelu Lukaku) og Liverpool einn (Virgil van Dijk).

Dýrasti leikmaðurinn í sögu Manchester City er Riyad Mahrez sem félagið keypti frá Leicester City fyrir 60 milljónir punda en þá borgaði City 57 milljónir punda fyrir Aymeric Laporte, 55 milljónir punda fyrir Kevin de Bruyne og 52 milljónir punda fyrir Benjamin Mendy.





Khaldoon Al Mubarak segir Manchester City ekki sætta sig við það að vera notað sem yfirvarp fyrir slæmar fjárfestanir annarra.

„Þegar þú nærð árangri þá er alltaf til staðar ákveðin afbrýðisemi og öfund eða hvað þú vilt kalla það. Það er hluti af leiknum,“ sagði Khaldoon Al Mubarak.

Gagnrýnin á Manchester City fór upp á næsta stig þegar UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, ákvað að senda mál félagsins inn á borð hjá sambandinu vegna gruns um brot á rekstrarreglum UEFA. Félagið heldur staðfastlega fram sakleysi sínu.

Ádeilan á Manchester City hefur ekki síst komið frá Spáni en spænsku liðin hafa misst takið á Evrópukeppnunum þar sem þau hafa raðað inn titlum á síðustu árum.

„Þetta er ekki aðeins árás á Manchester City heldur á alla okkar deild. Ég vona að fólk fari að sjá það. Ég veit að fólk vill ekki koma til varnar Manchester City en í guðs bænum farið að verja deildina okkar,“ sagði Mubarak.

„Það eru fjögur ensk félög í úrslitaleikjum Evrópukeppnanna. Við erum með bestu deildina í heimi, deildina sem gengur best á markaði og eigum vinsælustu félögin á heimsvísu. Þetta pirrar fullt af fólki á mörgum stöðum,“ sagði Mubarak.





Manchester City hefur samt áhyggjur vegna grein New York Times sem hélt því fram að Manchester City yrði hent út úr Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Félagið óttaðist það að heimildarmenn blaðsins væru aðeins með það markmið að skaða orðspor og viðskiptahagsmuni félagsins.

Mubarak hefur ekki áhyggjur af neinu fái Manchester City sanngjarna meðferð . „Við verðum án efa sýknaðir ef dæmt verður eftir staðreyndum málsins,“ sagði Mubarak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×