Innlent

Eldstöðin Katla vöktuð þvers og kruss úr lofti

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugferlar TF-FMS yfir Mýrdalsjökli í morgun.
Flugferlar TF-FMS yfir Mýrdalsjökli í morgun. Mynd/Flightradar24.

Flugvél Isavia, TF-FMS, flaug fjölda ferða yfir Mýrdalsjökul í morgun, þvers og kruss, og í aðeins 300 feta hæð yfir jöklinum. Flugferðirnar sáust vel á flugratsjársíðunni Flightradar24. 

Beechcraft King Air-flugvélin var þarna á vegum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Tveir starfsmenn hennar voru um borð, auk flugmanna vélarinnar.

TF-FMS, flugvél Isavia, í flugtaksbruni á Reykjavíkurflugvelli í síðustu viku. Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.

Slíkar flugferðir eru farnar tvisvar á ári og eru liður í vöktun eldstöðvarinnar Kötlu, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði. Kannað sé hvort einhverjar breytingar sjáist á yfirborði jökulsins, þar á meðal á sigkötlum. Hann segir að unnið verði úr gögnunum á næstu tveimur vikum, en ekkert óvenjulegt hafi þó sést í morgun. 

Um borð í flugvélinni er sérstök ratsjá, tengd gps-tækjum vélarinnar, sem mælir nákvæmlega hæð jökulsins. GoPro-myndavélar eru ennfremur festar við flugvélina til að mynda jökulinn.

Hér má sjá flugvél Isavia renna sér lágt yfir norður-suður braut Reykjavíkurflugvallar í síðustu viku:
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.