Innlent

Eldstöðin Katla vöktuð þvers og kruss úr lofti

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugferlar TF-FMS yfir Mýrdalsjökli í morgun.
Flugferlar TF-FMS yfir Mýrdalsjökli í morgun. Mynd/Flightradar24.
Flugvél Isavia, TF-FMS, flaug fjölda ferða yfir Mýrdalsjökul í morgun, þvers og kruss, og í aðeins 300 feta hæð yfir jöklinum. Flugferðirnar sáust vel á flugratsjársíðunni Flightradar24. 

Beechcraft King Air-flugvélin var þarna á vegum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Tveir starfsmenn hennar voru um borð, auk flugmanna vélarinnar.

TF-FMS, flugvél Isavia, í flugtaksbruni á Reykjavíkurflugvelli í síðustu viku.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Slíkar flugferðir eru farnar tvisvar á ári og eru liður í vöktun eldstöðvarinnar Kötlu, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði. Kannað sé hvort einhverjar breytingar sjáist á yfirborði jökulsins, þar á meðal á sigkötlum. Hann segir að unnið verði úr gögnunum á næstu tveimur vikum, en ekkert óvenjulegt hafi þó sést í morgun. 

Um borð í flugvélinni er sérstök ratsjá, tengd gps-tækjum vélarinnar, sem mælir nákvæmlega hæð jökulsins. GoPro-myndavélar eru ennfremur festar við flugvélina til að mynda jökulinn.

Hér má sjá flugvél Isavia renna sér lágt yfir norður-suður braut Reykjavíkurflugvallar í síðustu viku:

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×