Innlent

Catalina á leið til Íslands

Catalinan TF-ISK, Skýfaxi, sem Flugfélag Íslands átti frá 1948 til 1959 en þá var hún rifin á Reykjavíkurflugvelli.
Catalinan TF-ISK, Skýfaxi, sem Flugfélag Íslands átti frá 1948 til 1959 en þá var hún rifin á Reykjavíkurflugvelli. Flugmálafélag Íslands.
Catalina-flugbátur er væntanlegur til Íslands á fimmtudag og verður hann hápunkturinn á flugdegi sem Flugmálafélag Íslands heldur á Reykjavíkurflugvelli á laugardag í tilefni af 75 ára afmæli Icelandair. Þetta verður í fyrsta sinn í áratugi sem almenningi hérlendis gefst kostur á því að skoða í návígi og sjá Catalinu á flugi, að sögn Matthíasar Sveinbjörnssonar, stjórnarmanns í Flugmálafélaginu.

Flugbáturinn verður til sýnis við Hótel Natura, áður Loftleiðahótelið, milli klukkan 12 og 16 á laugardag, auk þess sem boðið verður upp á flugsýningar í lofti, þar á meðal listflug og nákvæmnisflug á þyrlu. Þar verða Fokker 50 Flugfélags Íslands, Dash-vél Landhelgisgæslunnar, Boeing 757 Icelandair og þristurinn Páll Sveinsson, auk fjölda annara flugvéla, samkvæmt upplýsingum Flugmálafélagsins.

Catalina-flugbátar skipa veglegan sess í flugsögu Íslands en þeir voru notaðir hérlendis um tuttugu ára skeið, á árunum frá 1944 til 1963, hjá Flugfélagi Íslands, Loftleiðum og Landhelgisgæslunni.

Fyrsti Catalina-bátur Íslendinga var TF-ISP Flugfélags Íslands, kallaður Gamli-Pétur. Þessi flugvél var keypt frá Bandaríkjunum árið 1944. Hún varð fyrsta íslenska flugvélin til þess að fljúga milli landa þegar áhöfn skipuð þeim Erni Ó. Johnson flugstjóra, Smára Karlssyni flugmanni og Sigurði Ingólfssyni flugvélstjóra flaug vélinni heim frá New York í október 1944 ásamt tveimur Bandaríkjamönnum. Þessi flugvél flaug fyrsta millilandaflug Flugfélags Íslands sumarið 1945.

Catalina flugbátar Flugfélags Íslands, Gamli-Pétur, Sæfaxi og Skýfaxi, og Loftleiða, Vestfirðingur og Dynjandi, áttu mikinn þátt í uppbyggingu innanlandsflugs á árunum 1944 til 1961 þegar flugvellir voru fáir, samgöngur á landi erfiðar og sjóferðir tímafrekar.

Síðasti Catalina flugbáturinn í notkun hérlendis var landhelgisflugvélin TF-Rán. Hún var í notkun hérlendis frá 1954 til 1963 og kom hún mjög við sögu í þorskveiðideilum Íslendinga við Breta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×