Erlent

Skotárás á lúxushótel í Pakistan

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Rana Irfan Ali
Fimm vopnaðir menn réðust á Pearl Continental Hótelið í Gwadar í Pakistan kl. 15 á staðartíma. Frá þessu er greint á vef norska ríkisútvarpsins NRK.

Sérsveit lögreglunnar er á staðnum og fór fram skotbardagi milli lögreglu og árásarmanna.

Zahoor Buledi, upplýsingaráðherra Pakistan, sagði alla gesti hótelsins hafa komist út en ekki sé búið að ná til árásarmannanna.

Ziaullah Lango, innanríkisráðherra landsins, segir að einhverjir hafi særst en enginn sé af erlendu bergi brotinn.

Árásarmennirnir hafa mikið af vopnum í fórum sínum. Pakistanska fréttastöðin ARY segir þá meðal annars hafa með sér flugdrifnar sprengjur og sprengjuvesti.

Lögregla sagði að heyrst hafi í sprengingum innan úr hótelinu.

Enn hefur enginn tekið ábyrgð á árásinni.

Buledi segir enga alvarlega hættu standa af árásinni en hann muni upplýsa fjölmiðla um framgang mála þegar lögregla hefur náð stjórn á aðstæðum.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×