Erlent

Hútar gerðu drónaárásir í Sádi-Arabíu

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Mynd frá því í desember sem sýnir dróna sem Hútar notuðu til árásar í Sádi-Arabíu.
Mynd frá því í desember sem sýnir dróna sem Hútar notuðu til árásar í Sádi-Arabíu. Vísir/AP
Uppreisnarmenn Húta í Jemen hafa lýst yfir ábyrgð á drónaárás á mikilvæga olíuleiðslu í Sádi-Arabíu og aðra olíutengda starfsemi í morgun. Árás var gerð á dælustöð þar sem eldur kom upp og var dælingu hætt tímabundið. Þá var á sama tíma ráðist á tvær dælustöðvar nærri höfuðborginni Riyadh.

Sádar hafa þar að auki haldið því fram að árásir hafi verið gerðar á flutningaskip á þeirra vegum undan ströndum Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Mikil spenna er nú á svæðinu en Bandaríkjamenn ákváðu nýlega að senda flugmóðurskip í Persaflóann auk þess sem bætt hefur verið í flota sprengjuflugvéla þeirra á svæðinu. Bandaríkjamenn saka Íran um að standa á bakvið skemmdarverkin, en Houthar í Jemen njóta stuðnings þeirra í borgarastríðinu sem þar geisar, á meðan Sádar og Bandaríkjamenn styðja stjórnvöld í Jemen.

Í samtali við AP fréttaveitunna segir Mohamed Abdel-Salam, talsmaður Húta, að árásunum í morgun hafi verið ætlað að senda skilaboð til Sáda.



„Þetta eru skilaboð til Sádi-Arabíu. Hættið árásum ykkar,“ sagði hann og bætti við að með árásunum vildu Hútar einnig bregðast við brotum Sáda gegn íbúum Jemen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×