Innlent

Tveir þingmenn Vinstri grænna flugu mest í fyrra

Kjartan Kjartansson skrifar
Lilja Rafney er með lögheimili á Suðureyri. Hún flaug mest innalands af þingmönnum.
Lilja Rafney er með lögheimili á Suðureyri. Hún flaug mest innalands af þingmönnum. Vísir/Vilhelm
Þingmenn fóru í nærri því þúsund flugferðir í fyrra, þar af tæplega sex hundruð ferðir innanlands. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, flaug mest innanlands, og flokkssystir hennar Rósa Björk Brynjólfsdóttir var sá þingmaður sem ferðaðist mest erlendis.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði frá tölum um flugferðir þingmanna í fréttatíma sínum í kvöld. Þar kom fram að landsbyggðarþingmenn hafi farið í langflestar flugferðirnar. Af 572 innanlandsflugferðum voru 80% ferðir þingmanna Norðaustur- og Norðvesturkjördæma.

Lilja Rafney, sem er þingmaður Norðvesturkjördæmis og formaður atvinnuveganefndar, flaug langmest þingmanna innanlands, fyrir alls rúmar tvær milljónir króna. Heildarkostnaður við flug þingmanna kjördæmisins var rúm 3,1 milljón króna í fyrra.

Í Norðausturkjördæmi flugu Njáll Trausti Friðbertson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, mest, fyrir rúma eina og hálfa milljón króna hvort. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, sem hefur flutt lögheimili sitt í Garðabæ flaug minnst af þingmönnum kjördæmisins. Heildarkostnaður vegna flugferða þingmanna kjördæmisins innanlands nam 10,4 milljónum króna.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, flaug mest til útlanda í fyrra. Hún er varaformaður utanríkismálanefndar.Vísir/Vilhelm

Ferðir ráðherra ekki taldar með

Af flugferðum til útlanda tróndi Rósa Björg Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður utanríkismálanefndar, á toppnum. Kostnaðurinn vegna flugferða hennar nam 1,2 milljónum króna. Á eftir henni kom Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og forseti þingsins, sem flaug fyrir 895.000 krónur.

Alls fóru þingmenn í 382 flugferðir til útlanda vegna vinnu í fyrra. Í fréttinni kemur fram að flugferðir ráðherra séu ekki í tölunum þar sem þær heyri undir ráðuneyti þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×