Innlent

Ísland eitt fárra landa í Vestur-Evrópu án aðlögunaráætlunar vegna loftslagsbreytinga

Sighvatur Jónsson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði við upphaf ráðstefnunnar í morgun að það kalli á nýjan hugsunarhátt að leiða hugann að aðlögun loftslagsbreytinga.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði við upphaf ráðstefnunnar í morgun að það kalli á nýjan hugsunarhátt að leiða hugann að aðlögun loftslagsbreytinga. Vísir/Vilhelm
Ísland er eitt fárra landa í vestanverðri Evrópu sem hefur ekki sett saman aðlögunaráætlun vegna loftslagsbreytinga. Þetta kom fram í erindi forstjóra Veðurstofu Íslands á ráðstefnu loftslagsráðs um aðlögun Íslands að breytingum á loftslagi. Hann segir næstu skref vera að setja á fót svokallað loftslagssetur hér á landi.

Umhverfis- og auðlindaráðherra skipað loftslagsráð fyrir einu ári. Ráðið á að veita stjórnvöldum aðhald með ráðgjöf varðandi stefnu í loftslagsmálum á Íslandi. Loftslagsráð er sjálfstætt og á að leiða saman krafta ríkis, sveitarfélaga, atvinnulífs, vísindasamfélagsins og almennings. Ráðið boðaði til ráðstefnunnar „Erum við viðbúin“, þar sem fjallað var um aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, á ráðstefnu loftslagsráðs í morgun.Vísir/Vilhelm
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði við upphaf ráðstefnunnar í morgun að það kalli á nýjan hugsunarhátt að leiða hugann að aðlögun loftslagsbreytinga. Þannig sé sjónum beint að forvörnum gegn breytingum á loftslagi.

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, sagði í erindi um næstu skref aðlögunaráætlunar loftslagsbreytinga að setja yrði á fót loftslagssetur sem yrði samráðsvettvangur um loftslagsmál.

„Það er fyrst og fremst að skapa samráð við gerð rannsóknaráætlunar um vísindalegar forsendur aðgerðaáætlunar um útlosun og aðlögun og forgangsraða þar verkefnum. Þetta er þá samhæfingarhlutverk gagnvart rannsóknum og eftirliti á náttúrufarsbreytingum en auðvitað samfélagslegum breytingum líka, vinna við gerð sviðsmynda sem er mjög mikilvægt að sé í mjög skýrum farvegi, vinna að úttekt á rannsókn á vöktunarþörf og þá í samvinnu við hagsmunaaðila, samræma og sinna mati á áhrifum og áhættu, eins og við höfum talað um áður, og síðan að miðla upplýsingum mjög markvisst.“

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, á ráðstefnu um aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum.Vísir/Vilhelm
Árni sagði að málið væri einnig til skoðunar hjá fleiri löndum Vestur-Evrópu.

„Hvað varðar Vestur-Evrópu, þá er hægt að segja að öll lönd, nema kannski við, af þessum hópi, hafa sett einhverjar reglur eða lög um einhverja stefnu um aðlögun landsins,“ sagði Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×