City bikarmeistari eftir stórsigur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Mancheseter City fagna
Leikmenn Mancheseter City fagna vísir/getty

Manchester City er enskur bikarmeistari og fyrsta karlaliðið í sögunni til þess að vinna ensku þrennuna eftir öruggan sigur á Watford í bikarúrslitaleiknum á Wembley í dag.

Leikurinn var mjög fjörugur strax frá upphafi og eftir tuttugu mínútna leik vildi Watford tvisvar fá vítaspyrnu á stuttum tíma. Roberto Pereyra féll í teignum og stuttu seinna hafnaði skot Abdoulaye Doucoure í hendinni á Vincent Kompany að mati Watfordmanna. Kevin Friend dæmdi þó ekki víti.

Stuttu seinna, á 26. mínútu, kom fyrsta mark leiksins. Það gerði hinn spænski David Silva með skoti sem átti viðkomu í fæti Kiko Femenia.

Watford fékk færi á því að jafna fljótu eftir mark Silva en Ederson varði vel í markinu.

Áður en hálfleikurinn var úti náði Manchester City að koma öðru marki í leikinn, Bernardo Silva átti stórbrotna sendingu inn í hlaupið hjá Gabriel Jesus sem setti boltann fyrir markið. Þar var Raheem Sterling mættur og skoraði af stuttu færi. Staðan í hálfleik var 2-0 fyrir City.

Watford fékk góð færi til þess að komast aftur inn í leikinn snemma í seinni hálfleik en nýtti þau ekki. Í staðinn gengu leikmenn City frá honum.

Kevin de Bruyne, sem hafði komið inn á sem varamaður fyrir Riyad Mahrez, skoraði mikilvæga þriðja markið á 61. mínútu. Sjö mínútum seinna skoraði Gabriel Jesus eftir sendingu frá de Bruyne.

Watford reyndi að sækja, það var það eina í stöðunni fyrir þá, og þar með opnaðist pláss sem leikmenn City nýttu sér og refsuðu grimmt.

Raheem Sterling bætti við tveimur mörkum undir lok leiksins til þess að ná sér í þrennu. Varnarmenn Watford vilja líklega gleyma þessum leik sem fyrst, sóknarmenn City sundurspiluðu þá trekk í trekk.

Þrenna Sterling var sú fyrsta í bikarúrslitaleik síðan árið 1953.

City náði ekki að gera þjáningu Watford enn verri, Friend flautaði leikinn af áður en fleiri mörk voru skoruð, lokaniðurstaðan 6-0 sigur Manchester City og bikarinn í þeirra höndum.

Þetta er sjötti bikartitillinn í sögu Manchester City, sá fyrsti síðan árið 2011. Nú er City Englandsmeistari, bikarmeistari og deildarbikarmeistari og handhafi allra þriggja titlanna sem í boði eru á Englandi. Aldrei áður hefur karlalið unnið alla þrjá titlana á sama tímabilinu.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.